Árni Stefán Árnason dýraverndarlögfræðingur sendi bréf á Alþingismenn í gærmorgun þar sem hann krefst þess að kosnir fulltrúar beiti sér gegn dýraníð í Borgarbyggð en Mannlíf hefur að undanförnu birt fréttir af málinu.
Sjá einnig: Nautgripir í Borgarnesi biðja um hjálp: „Okkur er kalt og við erum svöng“
Eftirfarandi tölvupóst sendi Árni Stefán í gærmorgun á alla Alþingismenn Íslands en ekki einn þeirra hefur svarað honum:
„Kæru þingmenn, ráðherrar, samborgarar.
Það ríkir alvarleg stjórnunarkrísa hjá matvælaráðherra og Matvælastofnun.
Ég ætla ekki að tíunda fréttir liðinna vikna frá Borgarbyggð, þær geta ekki hafa farið framhjá neinum ykkar.
Dýr undir eftirliti og/eða í umsjón framangreindra þurfa að líða hrottalegar þjáningar, eru vanfóðruð og vannærð þrátt fyrir að vera undir eftirliti MAST. Heilbrigð dýr eru send í sláturhús í stað þess að hlýða fyrirmælum laga um velferð dýra, koma þeim í góðar hendur og veita líf.
Meðfylgjandi mynd er af miðli sem birti hana í morgun. Hún segir allt um krísuna.
Vinsamlega bregðist við með þeim hætti, sem ykkur finnst viðeigandi til að koma þessum dýrum til hjálpar og helst í góðar hendur. MAST neitar slíkri samvinnu.“