Mér finnst líka svolítið merkilegt í þínu starfi með þetta að það er sjaldan sem menn eru nafngreindir, þið treystið svolítið á þetta svona hvísl og það sem hefur verið kallað slúður og kjaftagangur í gegnum aldirnar, að sannleikurinn muni koma í ljós, hvernig sem það gerist. Er það meðvituð ákvörðun? Spyr Margrét Erla Maack í Fréttavaktinni.
„Í allri hreinskilni þá hef ég ekki verið í þessum hvíslgrúppum eða þannig, heldur hefur það bara verið þannig að annað hvort eru þetta vinkonur mínar sem segja mér frá þessu eða þær bara hafa samband við mig, þolandinn sjálfur. En ég held það sé auðvitað alveg þetta hvíslsamfélag búið að vera ótrúlega lengi en það virðist bara vera að þú þurfir einhvern veginn að draga þolandann sjálfan út í sviðsljósið til þess að fólk trúi.“
Spurð um hvort að gerendur leiti sérstaklega í konur sem þeir líti á sem „óæðri“, til að mynda konur af erlendum uppruna eða ungar konur, segir Edda:
„Algjörlega. Ég held þetta sé einmitt eins og þú sagðir. Hvort það sé tenging með það að þú sért af erlendu bergi brotnu. Þeir líta á þig sem svona óæðri. Það mun enginn trúa þér af því þú ert ekki frá Íslandi, þú ert ekki partur af okkur, ég held að það spili alveg stóran þátt í þessu.“
Edda var gestur Fréttavaktarinnar á Hringbraut í kvöld þar sem Margrét Erla Maack ræddi við hana um þau áhrif sem viðtalið hefur haft. Edda segir það jákvætt að sjá fyrirtæki axla ábyrgð en er þó hóflega bjartsýn um framhaldið.
„Auðvitað erum við alveg að sjá breytingar og allt það. Náttúrlega ótrúlega stórt skref að sjá fyrirtæki vera að taka afstöðu eins og við sjáum með Ísey og fleira, það eru alveg góðar breytingar. En erum við að sjá raunverulegar samfélagslegar breytingar? Ég veit það ekki, mér finnst við ekkert endilega vera að sjá eitthvað svakalegt vera að gerast.“
Mikið hefur verið talað um hlaðvarpsþátt Eddu Falak eftir viðtal sem hún tók í hlaðvarpsþættinum Eigin konur þar sem Vítalía Lazareva segir frá kynferðisofbeldi sem hún lenti í af hendi fimm áhrifamikilla manna.
Aðspurð um af hverju þolendur kjósi heldur að segja sína sögu í hlaðvörpum heldur en í hefðbundnum fjölmiðlum segir Edda:
„Ég held líka að það sé bara svolítið þannig að þegar þú mætir í viðtal með svona sögu, þá er svo mikilvægt að þú sért að tala við einhvern sem þú veist að trúir þér, þú ert með fullkomið traust og þú ert í rauninni með bara frjálsan tíma til að útskýra allt sem gerðist, og þú ert ekki að mæta neinum sem þurfi að vera eitthvað hlutlaus eða spyrja spurninga sem lætur þér líða eins og þú sért að ljúga og annað. Svo líka höfum við bara séð það að fjölmiðlar eru ekkert endilega að bjóða þolendum í eitthvað drottningarviðtal.“
Mannlíf hefur fjallað um málið.
Vítalía: „Leituðu upplýsinga um hennar einkalíf og gerðu lítið úr henni sjálfri“