„Piparostur á pizzu og mexico ostur í pasta er gjörsamlega siðlaust og ógeðslegt.“
Ýmsar orrusturnar eru háðar á Twitter, eins og þekkt er í samfélagsumræðu nútímans. Ekki skal þó vanmeta mátt pizzunnar og þær deilur sem einfaldar staðhæfingar þeim að lútandi geta valdið.
Hver man til dæmis ekki eftir forseta Íslands og stóra ananasmálinu?
Það er Edda Falak, aktívisti, hlaðvarpsstjórnandi og crossfit-sleggja, sem ríður á vaðið í dag með eftirfarandi staðhæfingu á Twitter: „Piparostur á pizzu og mexico ostur í pasta er gjörsamlega siðlaust og ógeðslegt.“
Viðbrögðin láta ekki á sér standa.
„Nú gekkstu of langt,“ segir Ingi einfaldlega.
„Pfft besta pizzan er pepperoni piparostur og ananas,“ segir Daníel.
Næstu sprengju á Bragi:
„Takk, það þurfti einhver að segja þetta. Má ég bæta við; rjómaostur á pizzu. Bætir engu við og eyðileggur áferð.“ Einmitt það, Bragi.
„Ég bræði pizzuna yfir ostinn og baka það… Bíddu, þetta er eitthvað vitlaust hjá mér. Maður baðar pizzuna upp úr ostinum… NEI! Nú man ég þetta, maður sýður pizzuna í 20 mín. Setur hana svo yfir piparostinn,“ segir Maggi og áttar sig greinilega ekki á alvarleika málsins.
Carlos kærir sig kollóttan um pizzur, en tjáir sig um pastastaðhæfinguna:
„Nkl. Hef aðeins eitt: Eini íslenski osturinn sem hugsanlega má setja á pasta, er gamall Óðalsostur. Og þá bara ef enginn finnst parmesan.“ Hversu gamall Óðalsostur, Carlos?
Fannar segir það sem flestir eru að hugsa:
„Núna held ég að þú sért að reyna að fá alla þjóðina upp á móti þér.“
„Ég vil fá 3 blaðsíðna fyrirgefningu,“ segir Ebbi. Hann meinar líklega afsökunarbeiðni.
Svo eru í athugasemdunum töluvert fleiri upphrópanir og hneykslunarorð. Sumir eru sárir.
Aðrir vilja hinsvegar bara horfa á heiminn brenna, eins og Helga:
„Gjörsamlega ósammála en fíla þessa kaotísku orku!“