María Dungal líffæraþegi er ein margra Íslendinga sem eru í aukinni smithættu af COVID-19 kórónaveirunni vegna undirliggjandi sjúkdóma. Dagsdaglega þarf hún að passa upp á sig og forðast flensu og aðrar pestir, en núna er aukin hætta vegna kórónaveirunnar og kannski ekki síst vegna þess að fregnir berast af því að Íslendingar sem koma erlendis frá reyna í einhverjum tilvikum að koma sér undan því að vera í sóttkví.
„Maður áttar sig ekki alveg á þessu en það eru rosalega margir ónæmisbældir á landinu, bæði þeir sem hafa þegið líffæri, þeir sem eru í lokameðferð vegna krabbameins, gigtveikir og aðrir. Það er stór hópur sem er ónæmisbældur,“ segir María sem situr í stjórn Nýrnafélagsins.
„Ég er búin að fá upplýsingar hjá Landspítalanum og í raun er ekki vitað hvernig kórónaveiran hegðar sér og hvort að ónæmisbældir muni veikjast verr af henni en aðrir, þar sem að hún er svo ný. Þannig að óvissuþátturinn er mjög stór hjá okkur. Stærsti vandinn er sá að það er einhver sjúkdómur sem veldur því að þú ert ónæmisbældur, sá sjúkdómur getur haft alls konar hliðarafleiðingar. Eins og ég sem var með nýrnabilun, en ég er hins vegar mjög heppin að það er ekkert að mér líkamlega fyrir utan að ég fékk nýtt nýra. En nýrnabilun getur oft leitt til of hás blóðþrýstings, hjarta- og æðavandamála og svo eru sykursjúkir mjög oft með nýrnabilun. Það eru þessir undirliggjandi sjúkdómar sem geta gert það að verkum að þeir sem eru með ónæmisbælingu geta dáið ef þeir fá kórónaveiruna.“
„Það er glatað ef einhver sem er með undirliggjandi sjúkdóm eða ofnæmisbælingu fær veiruna út af svona framkomu“
Hætt að mæta á fjölfarna staði
María sem er í dag 47 ára, greindist í janúar árið 2016 með nýrnabilun. „Þegar þú ert með nýrnabilun þá er það eina sem gerist að nýrnastarfsemin versnar, þú veist að endapunkturinn er að þú þarft að fara í blóðskilun til að halda þér á lífi og þú þarft að fá nýra á endanum.“
María fékk loks nýra í september árið 2019 og segir hún það lykilatriði að hugsa vel um sig, og meðallífftími nýra líkt og annarra gjafalíffæra er mislangur. „Hann er 12-15 ár og það eru einstaklingar sem hafna nýra eftir eitt ár og aðrir sem eru með það í 40 ár. Þannig að það er á mína eigin ábyrgð að fara eins vel með líkama minn og ég mögulega get,“ segir María, sem er á lyfjum sem bæla ofnæmiskerfið í henni og tekur hún lyfjakokteil á hverjum degi til að tryggja að líkaminn vilji halda nýranu.
„Ég hef verið í einkaþjálfun hjá Birni Þóri Sigurbjörnssyni frá því áður en ég fékk nýrað, ég veit samt ekki alveg hvernig mér tókst að komast þangað í byrjun. Hann hefur verið alveg ómetanlegur, hefur kynnt sér allt um nýrnabilun og ígræðslu til að hjálpa mér sem best og veita mér ráðgjöf í takt við það.“
Vegna greiningar COVID-19 veirunnar hér á landi sér María sig hins vegar nauðbeygða til að hætta að mæta í líkamsræktarstöðina. „Eins og staðan er núna þá er verið að grípa öll tilfelli á Keflavíkurflugvelli en nú fer að styttast í að veiran fari að smitast á meðal almennings. Staðir þar sem margir koma saman verður alltaf sýkingarbæli. Þannig að núna neyðist ég til að hætta að mæta í nokkrar vikur og er alveg miður mín yfir því. Ég er bara að æfa heima,“ segir María. „Ég ætla ekki að stíga inn í líkamsræktarstöð fyrr en ástandið hefur gengið yfir. Ég ætla ekki í bíó, sund, leikhús eða aðra á fjölmenna staði, það er bara algjör óþarfi. Ef ég fæ vírusinn þá gæti ég orðið miklu veikari en aðrir, það gæti haft alvarlegar afleiðingar og við þurfum að passa okkur sérstaklega vel.“
Vinnustaðurinn búinn að gera áætlun vegna COVID-19
María mætir til vinnu og segir að á vinnustað hennar sé búið að gera aðgerðaráætlun og allir samstarfsmenn hennar séu mjög meðvitaðir um stöðuna. „Ég er alltaf með sprittbrúsa á mér sjálf, en hér eru sprittbrúsar á öllum borðum og leiðbeiningar hanga uppi um hvernig eigi að standa að handþvotti. Ég tek stöðuna bara frá degi til dags, ef það fer að bera mikið á smitum meðal almennings, þá getur komið að því að ég fari að vinna heiman frá mér. Ég er með ótrúlega góða vinnuveitendur sem eru meðvitaðir um stöðu mína og einnig að hér eru aðrir starfsmenn með undirliggjandi sjúkdóma. Það er búið að gera áætlun hvernig hægt verði að bregðast við og hverjir þurfa að hafa tengingu að heiman og slíkt,“ segir María. „Ég er búin að vinna hér í fjögur ár og er í dag að heyra um samstarfsmenn sem eru með undirliggjandi sjúkdóma, sem ég hafði ekki hugmynd um að væru með þá. Þessi hópur er bara miklu stærri sem er með ónæmisbælingu eða undirliggjandi sjúkdóma en við gerum okkur grein fyrir. Ég þarf alltaf að fara varlega, nú fer ég bara enn varlegar. Ef ég smitast þá smitast ég og þá tækla ég það. Ég ætla ekki að eyða tímanum fram að því í að hafa áhyggjur. Það kemur á óvart hvað maður er mikið á fjölmennum stöðum án þess að gera sér grein fyrir því.“
Hvað finnst þér að heyra um einstaklinga sem eru að koma sér undan því að fara í sóttkví og jafnvel að gorta sig af því á samfélagsmiðlum?
„Mig langar svo að segja hvaða fávitar eru þetta, en svo stígur maður aðeins yfir það. Þetta er auðvitað bara ofboðsleg fáfræði og ofboðsleg sjálfhverfa. Þetta er bara ég um mig frá mér til mín í sinni hreinustu mynd og ég finn hreinlega til með þeim einstaklingum sem haga sér svona. Það er glatað ef einhver sem er með undirliggjandi sjúkdóm eða ofnæmisbælingu fær veiruna út af svona framkomu. Það er bara skelfilegt,“ segir María. „Fyrst var stemningin þannig í þjóðfélaginu að þetta væri bara taugaveiklun og þetta skipti engu máli. Núna held ég að fólk sé farið að gera sér grein fyrir alvarleikanum, en samt hegðar fólk sér svona. Ef þú hagar þér svona þá ertu bara lægst í virðingarstiganum hvað mig varðar.
Við verðum að vera skynsöm og samfélagslega ábyrg án þess að panika.“