„Verð að segja, þetta getur alls ekki staðist,“ segir Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi formaður Rafiðnsamband Íslands, og vísar í fréttir um að þjóðkjörnir fulltrúar, ráðherrar og embættismenn hafi fengið of há laun síðustu ár. Uppsöfnuð ofgreidd laun eru alls um 105 milljónir króna.
Guðmundur segir að þetta stangist á við hans reynslu. „Hef komið mikið að kjarasamningum og við launamenn þekkjum vel að það hefur aldrei liðið meira en nokkrar klst. að Excel liðið í fjármálarráðuneytinu sé búið greina kröfur launamanna með tveim aukastöfum og senda frá sér í fjölmiðlana hversu háar kröfurnar eru,“ segir Guðmundur.
Hann segir að þetta sýni að ráðherrar og embættismenn séu varla hæfir til að meta kröfur launamanna. „Ef ráðherrar og embættismenn átta sig ekki hversu mikil 400.000 kr launahækkun á mánuði er í raun, þá eru þeir ekki hæfir til þeirra starfa sem þeir sinna fyrir okkur þjóðina og þaðan af síður hæfir til þess að meta kröfur launamanna.“