Ekkja Kelvin Kiptum, Asenath Rotich, reyndi að halda aftur af tárunum og leiddi syrgjendur við jarðarför hins unga heimsmethafa í maraþoni í Kenýa.
Hún brotnaði niður þegar hún upplýsti að parið hefði verið að skipuleggja stóra brúðkaupsveislu sem átti að vera í apríl. Kiptum var aðeins 24 ára þegar hann lést í bílslysi fyrir tæpum tveimur vikum.
Hann hafði komið hlaupaheiminum rækilega á óvart á stuttum maraþonferli sínum og íþróttamenn og stjórnmálamenn komu til að heiðra mann sem lífið hafði lofað svo miklu.
Í frétt BBC um jarðarför hins unga íþróttamanns kemur fram að forseti Kenía, William Ruto hafi mætt í hana, sem og Sebastian Coe, yfirmaður heimssambands frjálsíþróttarinnar.
Útförin var haldin á sýningarsvæði í þorpinu Chepkorio í vesturhluta Kenýa, þar sem Kiptum þjálfaði.
Ekkja Kiptum, sagði frá því í útförinni að þau hefðu verið að skipuleggja „litríka brúðkaupsveislu“ sem halda átti í apríl en hjónin giftu sig 2017. Nærvera hennar minnti alla á að hin hógværa og mjúkmála stjarna, hafði einnig skilið eftir konu sína, tvö börn og foreldra.
„Við syrgjum þig elskan,“ sagði hún og bætti við, „Ég hef grátið þar til ég gat ekki meira. Ég mun sakna þín og þú ert ástin í mínu lífi, að eilífu. Þar til við hittumst aftur.“
Einhverjir bestu hlauparar heims koma frá Kenýa en margir þeirra komu í jarðarförina til að votta virðingu sína. Amos Kipruto, sem sigraði Lundúnarmaraþonið árið 2022, var einn af kistuberum í útförinni. „Hendurnar eru ekki nógu sterkar,“ sagði hann í samtali við BBC. „Hjarta mitt er þungt, það er þjáð, og mér finnst ennþá eins og þetta sé kvikmynd … við erum allir keppinautar í hlaupinu en í vinskap erum við saman.“
Faith Kipyegon, margfaldur heimsmeistari lýsti Kiptum sem „einstökum“ og velti fyrir sér hvað hefði getað orðið, að þetta hefði átt að vera árið sem hinn ungi langhlaupari bryti tveggja klukkutíma múrinn í maraþoni.
„Síðan hann kom fram á sjónarsviðið hefur hann verið að endurskrifa söguna,“ sagði hinn reynslumikli hlaupari Paul Tergat við BBC. „Hann hefur arfleifð sem við höfum aldrei séð í þessum heimi. Við erum hér … til að fagna því sem hann hefur áorkað á mjög stuttum tíma.“
Kiptum hljóp sitt fyrsta maraþon í desember 2022 og hljóp á hraðasta tíma sem nokkur hefur hlaupið í fyrsta maraþoninu sínu. Þá sló hann met Lundúnarbrautarinnar á síðasta ári og svo heimsmetið sjálft í október, sem landi hans Eliud Kipchoge hafði átt. Í heildina hljóp hann á mesta hraða allra tíma í þremur maraþonum af sjö á innan við ári.
En Kiptum var einnig hetja heima fyrir, sem gerði margt fyrir fólkið á heimasvæði hans. „Ég finn sársauka og sjokk,“ sagði Susan Jerotich, sem býr í þorpinu þar sem útförin var haldin. „Hann hefði gefið samfélaginu og fjölskyldunni svo mikinn stuðning. Hann var ljósið okkar. Hann hafði hvetjandi áhrif á marga. Við sögðum oft við börnin: „Verið eins og Kiptum“.“