Matgæðingurinn Guðrún Sóley Gestsdóttir sýnir og sannar hversu gómætur vegan matur getur verið með nýju uppskriftarbókinni sinni.
Sælkerinn og fjölmiðlakonan Guðrún Sóley Gestsdóttir var að gefa út matreiðslubók sem hefur að geyma dásamlegan vegan-uppskriftir. Bókin heitir Grænkerakrásir Guðrúnar Sóleyjar: vegan uppskriftir fyrir mannúðleg matargöt. Guðrún Sóley segir bókina vera fyrir alla þá sem elska góðan mat.
Spurð út í hvernig það kom til að hún hellti sér út í bókaskrif segir Guðrún Sóley: „Ég á minnst í þeirri hugmynd – þær Dögg og Anna Lea hjá Sölku útgáfuhúsi tóku eftir að ég deildi vegan uppskriftum út um allar trissur, grillaði veganborgara út um allan bæ og bauð linnulaust í vegan matarboð. Þær stungu að mér þeirri tillögu að ég tæki allt brasið saman í bók og ég stökk á það tækifæri því mér finnst mikilvægt að sýna fólki hvað vegan matreiðsla er auðveld, gómsæt og skemmtileg.“
Ég er sökker fyrir frönskum í öllum myndum og ég gæti borðað avókadófranskarnar með chili-majó í öll mál.
Þegar Guðrún Sóley er beðin um að nefna uppáhaldsuppskriftina sína úr bókinni á hún erfitt með að svara. „Úff, það er erfitt að segja! Ég er sökker fyrir frönskum í öllum myndum og ég gæti borðað avókadófranskarnar með chili-majó í öll mál. En annars á réttur sem ég kalla GSG-special heimtingu á þessum titli. Það eru hnetusmjörs-sesam-núðlur með fersku grænmeti og lime. Bragðlaukarnir tjúllast yfir þessum rétti og hann hæfir við öll tilefni,“ segir Guðrún Sóley. Hún lýsir GSG-special sem litríkum og næringarríkum rétti sem er auðvelt að útbúa. „Rétturinn er góður kaldur og heitur. Kostir hans eru eiginlega óteljandi og ég hef enn ekki hitt manneskju sem þykir hann vondur.“
Missir sig í pizza-gleði
Aðspurð hvaða matur henni sjálfri þykir ómissandi segir Guðrún Sóley: „Ég er svo einföld sál að ég segi pizzur. Einhverjir gætu haldið að það væri lítið fútt í vegan pizzum en það er á misskilningi byggt – þær eru nákvæmlega jafn djúsí og skemmtilegar. Nú er hægt að fá skrilljón tegundir af vegan ostum og rjómaostum úti í búð, auk þess sem hægt er að útbúa þá heima með lítilli fyrirhöfn. Svo er bara að missa sig í gleðinni; blanda til dæmis chili, ferskum fíkjum, steiktum sveppum, fennel eða hverju því sem okkur finnst best. Ég vil líka meina að góð pizza þurfi alltaf svokallað „krönsj-element“ – eitthvað stökkt og gott á toppinn, til dæmis saxaðar salthnetur eða mulið nachos. Ég fæ vatn í munninn!“
Ég vil líka meina að góð pizza þurfi alltaf svokallað „krönsj-element“.
Ekki eintómt brokkólí
Það er augljóst að í bókinni er að finna afar fjölbreyttar uppskriftir, allt frá djúpsteiktum avókadófrönskum og hummus yfir í gómsæta súkkulaðiköku og pavlovur. „Þær eru nauðsynlegur hluti af mataræði hverrar manneskju og bjóða upp á endalausa möguleika.“
Guðrún Sóley segir uppskriftirnar í bókinni vera fyrir alla sælkera. „Ég lagði þunga áherslu á að hver einasti réttur væri bragðgóður, djúsí og mettandi. Vegan matur er alls ekkert megrunarfæði eða eintómt hrátt brokkolí. Hún er líka fyrir þá sem vilja auka hlutfall grænmetis í mataræðinu sínu og læra að fara með hráefni sem okkur er kannski ekki tamt að nota.“