„Ég vona að aðilinn sem ég mætti í Borgarfirðinum á öfugum vegarhelmingi að taka fram úr 4 bílum í blindbeygju, hafi ekki misst af viðburðinum sem hann virtist vera að missa af,“ segir Sigurður Svavarsson sem í vikunni ritaði færslu á Facebook um erfiða lífsreynslu í ökuferð með fjölskyldu sinni í Borgarfirði.
Sigurður segir ökumann stórrar jeppabifreiðar hafa ógnað lífi sínu og barnanna hans sem eru tveggja og fjögurra ára gömul. Jeppinn hafi tekið framúr fjórum bílum í blindbeygju. „Án þess að vilja hljóma dramatískur þá hef ég sjaldan verið jafn hræddur um líf mitt. Ég var að keyra heim að norðan þegar ég varð að keyra útaf til að fá ekki stóran jeppa framan á mig,“ segir Sigurður.
Sigurður segist greinilega að ökumaður jeppans hafi ekki haft nokkrar áhyggjur af því að þurfa að róa börn sín eftir sjokkið við að hendast útaf veginum þegar hann vék fyrir jeppanum. Hann segir það mildi að kona sín hafi ekki endað daginn sem barnlaus ekkja. „Ég vona að ástæða þess að þú ókst eins og þú ókst hafi verið það góð að það mátti fórna einni fjölskyldu fyrir hana. Það vildi svo ótrúlega til að þar sem við hentumst útaf var aðeins malarruðningur en ekki skurður, tré eða stórir steinar. Ég vona ð lögreglan hafi haft tækifæri og ástæðu til að taka þig úr umferð áður en þú skaðar einhvern.“