Mánudagur 25. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

Egill hálsbrotnaði og lamaðist áður en snjóflóðin skullu á: „Man nákvæmlega hvar ég var staddur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í janúar 1995 urðu snjóflóð í Súðavík og í Reykhólasveit sem skilja eftir djúp sár. Egill St. Fjeldsted, sagnfræðingur frá Patreksfirði var að gefa út bók um snjóflóðin sem heitir Þrekvirki, en hún byggir á viðtölum við 40 manns sem annað hvort voru á heimilum sínum þegar flóðin skullu á þeim eða tóku þátt í björgunarstörfum með einhverjum hætti.

Þeir sem lentu undir snjóflóðinu eða komu að björgun hafa ekki treyst sér til að tala um áfallið hingað til, en harmleikurinn skildi eftir sig stórt ör í lífi fólks.

Blaðamaður settist niður með Agli á fallegu heimili hans í Hafnarfirði og var rætt um lífið, snjóflóðin og nýjustu bók hans; Þrekvirki.

Á þeim tíma sem snjóflóðin skullu á, var Egill sjálfur að ganga í gegnum erfitt tímabil. Hann hafði verið afreksíþróttamaður, en slasaðist illa í bílslysi við Flókalund í júlí árið 1994, aðeins 25 ára gamall. Vinirnir voru í bíltúr þrír saman, þegar slysið varð. Egill sat í aftursætinu og var ekki í belti. Hann hálsbrotnaði og lamaðist frá brjósti og niður.

Allt frá þeim tíma hef ég verið meðvitaður um að hræðilegir atburðir áttu sér stað þennan dag sem lítið eða ekkert hefur verið fjallað um af skiljanlegum ástæðum. Nú þegar bráðum eru liðin 27 ár frá því þetta gerðist var kannski kominn tími til að opna á umræðu um hvað gerðist í raun þennan örlagaríka morgun og hvernig björgunarstarfið fór fram en að því komu nærri 400 manns með einhverjum hætti.“

Mikil eyðilegging blasti við

Sagnfræðingurinn gaf út sína fyrstu bók fyrir jólin 2020 og fjallaði hún um krapaflóðin tvö sem skullu á Patreksfjörð þann 22. janúar árið 1983.

- Auglýsing -

Eftir að ég lauk við að skrifa bókina um Krapaflóðin á Patreksfirði 1983 fannst mér rökrétt að halda áfram með sambærilegt efni sem lítið hafði verið skrifað um. Einnig var það mér hvatning að bókin fékk góðar viðtökur og ég mikið þakklæti fyrir að skrá atburðinn, sem var að mestu gleymdur öðrum en Patreksfirðingum. Einnig kom í ljós að ungt fólk frá Patreksfirði vissi lítið um atburðinn.“

Mikil eyðilegging blasti við og um tíma var óttast um að mannfallið hefði verið mun meira eða allt að 30 manns. Í kjölfar seinna flóðsins var bærinn rýmdur og gistu í kringum 500 manns á tveimur fjöldahjálparstöðvum um nóttina sem og í heimahúsum á öruggum stað.

Egill gerir þessum hamförum skil í fræðibók sinni en kjölfar útgáfu bókarinnar fékk hann óvænt persónulegt bréf frá Bessastöðum. Í bréfinu óskaði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, honum til hamingju með vel unnið verk.

- Auglýsing -

„Það er vandasamt að segja frá skelfilegum viðburðum af þessu tagi, af hreinskilni en einnig með virðingu og nærgætni að leiðarljósi. Þetta fannst mér takast vel,“ skrifar Guðni.

Hann segist hafa hugsað til bókarinnar þegar að aurskriðurnar skullu á byggðina í Seyðisfirði fyrir síðustu jól. „Blessunarlega varð ekki mannskaði þá fyrir liggur að engu mátti muna í þeim efnum.“

Í bréfinu sagði Guðni að ljóst væri að reynsla landsmanna af náttúruhamförum knúi stjórnvöld til að sinna betur þeim vörnum sem hægt er að koma upp á hverjum stað.

„Jafnframt er brýnt að til séu frásagnir af þeim hamförum sem dynja yfir. Þú átt þakkir skildar fyrir þinn þátt á þeim vettvangi,“ skrifar Guðni.

Blindbylur og svartamyrkur

Árla morguns mánudaginn 16. janúar 1995 féll snjóflóð á þorpið í Súðavík á meðan flestir voru í fastasvefni. Í blindbyl og svartamyrkri hófu heimamenn leit að sínum nánustu, ættingjum og vinum við hrikalegar aðstæður.

„Ég, líkt og trúlega flestir sem voru komnir til vits og ára þegar snjóflóðið féll man ég nákvæmlega hvar ég var staddur þegar Ríkisútvarpið rauf útsendinguna og tilkynnti landsmönnum að snjóflóð hefði fallið á byggðina í Súðavík.“

Innan skamms varð ljóst að fjölda fólks var saknað og í kjölfarið var óskað eftir fjölmennu utanaðkomandi björgunarliði.

Fljótlega eftir að ég byrjaði á þessu verkefni barst mér til eyrna að þeir sem lentu í snjóflóðinu vildu ekki ræða atburðinn en þegar á reyndi vildu allir tala við mig, þó sumir þyrftu langan umhugsunarfrest. Fyrir þær sakir er bókin sérstök og jafnvel einstök því í henni segja íbúar tólf húsa af fimmtán sögu sína, í mörgum tilfellum af mikilli nákvæmni. Sama gildir um björgunaraðila sem komu á vettvang.“

Mannskætt snjóflóð

Á meðan ég var að afla heimilda rak ég augun í að mannskætt snjóflóð sem varð tveimur dögum eftir flóðin í Súðavík, flóð sem trúlega flestir voru búnir að gleyma og því ekki annað hægt en að fjalla einnig um það. Sérstaklega í ljósi þess hversu stutt var á milli þeirra en það féll einnig á Vestfjörðum.“

Að kvöldi mánudagsins 18. janúar þetta sama ár 1995 féll annað mannskætt snjóflóð á sveitabæinn Grund í Reykhólasveit.

„Veðuraðstæður voru þá með þeim hætti að engin leið var að koma utanaðkomandi björgunarliði á staðinn.

Kom það því í hlut vina og ættingja úr næsta nágrenni að sjá um björgunaraðgerðir við afar erfiðar aðstæður. Egill lýsir í bókinni aðstæðunum á svæðinu, ringulreiðinni og örvæntingunni, en eina leiðin að bæjunum var sjóleiðis. Þetta var yfir hávetur og aðkoma í bæinn sérstaklega erfið.

Björgunarstarfið

Egill lýsir björgunarstarfinu og segir; „í fyrsta lagi var veðrið með þeim hætti að engin leið var að komast til Súðavíkur nema með skipum. Ekki var fært fyrir þyrlur, snjósleða eða snjóbíla. Hjá lögreglustöðinni á Ísafirði var strax byrjað að  huga að því hvernig hægt væri að koma björgunaraðilum til Súðavíkur á sem skemmstum tíma. Um leið veltu menn einnig fyrir sér þeirra erfiðu spurningu hvort yfirleitt væri fært til Súðavíkur í slíku ofsaveðri. Allir staðkunnugir vissu að Súðarvíkurhlíð er snarbrött og þekkt fyrir tíð snjóflóð, enda kom í ljós þegar leiðin var könnuð að fjölmörg flóð höfðu fallið þar um nóttina.

Sjóferðin á milli Ísafjarðar og Súðavíkur var í einu orði sagt hrikaleg og töldu margir óvanir sjómenn um borð í skipunum þar á milli að þeirra hinsta stund væri runninn upp. Sama gilti um varðskip, togara og flutningaskip sem sigldu í stórsjó og ísingu til að koma björgunarmönnum til Súðavíkur.

Eftir að skipin komu að bryggju í Súðavík með björgunarfólkið varð það að hlaupa í djúpum krapa eftir bryggjugólfinu á meðan brim gekk yfir sjóvarnargarðinn, sem varð til þessa að fáir komust óblautir í Hraðfrystihúsið Frosta þar sem björgunarfólkið og þeir sem stjórnuðu björgunaraðgerðum höfðu aðsetur. Þangað leituðu einnig Súðvíkingar eftir flóðið.“

Erfiðar sögur

Ég tók ákvörðun um að rekja ekki líf fólks eftir að það lenti í snjóflóðinu, þar eru erfiðar sögur um hjónaskilnaði og annað. Sama gildir um áfallahjálp og áfallastreituröskun sem hefði verið löng og erfið umfjöllun sem ég hef ekki þekkingu á til að fjalla um vitrænt. Hins vegar fjalla ég stuttlega um hvaða afleiðingar björgunarstarfið hafði á suma sem fóru til Súðavíkur.“

Hægt er fræðast nánar um atburðina í bók hans Þrekvirki. Bókin prýðir fjölda mynda og er hægt að nálgast hana í helstu bókabúðum og hjá höfundi – sjá fésbókartengil.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -