Fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason hefur lengi verið með puttann á púlsinum þegar kemur að stjórnmálum á Íslandi og erlendis og hann setur fram áhugaverðar pælingar um þá heimsmynd sem við búum við í dag.
„Hægri vængurinn á Íslandi er í uppnámi eftir kosningarnar – og nú bíður Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins að vera saman í stjórnarandstöðu,“ skrifar Egill á samfélagsmiðilinn Facebook.
„Það er áleitin spurning hvernig hægrið ætlar að bregðast við framrás trumpismans – hversu mikil áhrifin verða? Varla mun hægrið geta samþykkt dólgshátt gagnvart öðrum ríkjum – og líka þeim vinveittu – sem ógnar alþjóðakerfinu sem hefur verið við lýði síðan í heimsstyrjöldinni síðari. Tollar eins og þeir sem Trump er að setja á hafa ekki verið á óskalista hægri manna – enda verður vart annað séð en þeir séu skaðlegir fyrir frjáls viðskipti. Hægri mönnum finnst varla gott heldur að Bandaríkin vilji gefa frá sér forystuhlutverk í alþjóðasamstarfi – Kína bíður þess átekta að fylla upp í gatið. Hvað varðar mannréttindamál þá stríða ýmsar yfirlýsingar Trumps mikið á á móti frjálsræðishugsuninni sem er býsna ríkjandi á Íslandi – og birtist til dæmis í stórum Gleðigöngum hvert ár,“ heldur hann áfram
„Það er kannski helst að afregluvæðing kunni að heilla – og máski að þar megi sjá eitthvað nýtilegt í trumpismanum á okkar miklu skrifræðistímum, þó í ansi miklu smærri skömmtum en fyrirhugað er vestanhafs þar sem virðist helst stefnt að því að mölva og skemma,“ skrifar fjölmiðlamaðurinn að lokum.