Egill Helgason, silfurdrengur Ríkisútvarpsins ver komu fjölda einkaþotna til landsins í næstu viku er þjóðarleiðtogar mæta á leiðtogafund Evrópuráðsins í Reykjavík.
Landvernd hefur gagnrýnt þann gríðarlega fjölda einkaflugvéla sem fylgja leiðtogafundinum í næstu viku en alls er von á 50 þotum á Reykjavíkurflugvöll. Egill Helgason tekur þó upp hanskann fyrir þotunum og bendir á að betra sé að þjóðarleiðtogar hittist frekar en ekki. Bendir hann samt sem áður á að fjölgun einkaþotna í heiminum sé fáránleg.
„Það er vissulega auðvelt að hneykslast á þessu. En svo má aðeins pæla – heimur þar sem þjóðarleiðtogar ferðast langvegu til að ræða málin er væntanlega betri en heimur þar þeir hittast ekki. Svo er erfitt að hugsa sér leiðtoga stórra þjóða ferðast í áætlunarflugi. Af því myndi hljótast mikil röskun, tímasóun, auk þess sem slíkir leiðtogar þurfa alltaf að geta verið í sambandi við stöðvar á jörðu niðri. Að því sögðu er fjölgun einkaþota í heiminum fáránleg – sem og hin ódýra og mikla fyrirgreiðsla sem þær fá á Reykjavíkurflugvelli.“
Ansi skrautlegar umræður hafa skapast í athugasemdum við færslu Egils. Sem dæmi má nefna að Sigurður nokkur spurði: „Hefurðu heyrt um fjarfundarbúnað?“ Og Egill svaraði: „afskaplega vond tillhugsun að leiðtogar heimsins hittist ekki í eigin persónu heldur tali saman í gegnum tölvur.“
Logi nokkur var sammála Sigurði: „Egill Helgason Finnst þér engin hræsni í að hafa áhyggjur af mengun og ferðast á sama tíma um í einkaþotu? Rökin um þeir verði alltaf að vera tengdir halda ekki vatni. Það eru varaforsetar sem eiga að taka við ef þetta lið hrekkur uppaf svo það er engu niður steypt þótt náist ekki í þá í 3 klukkutíma. Fyrir utan að þeir hefðu geta farið saman í einni þotu sem hefði verið stúkuð niður.“