Í dag birti Hrafnhildur Sigurðardóttir, eiginkona Arnars Þórs Jónssonar forsetaframbjóðanda, færslu inni á Mæðratips þar sem hún tekur upp hanskann fyrir eiginmann sinn og furðar sig á orðljótri samræður í Facebook-hópnum. „Ég er knúin til að skrifa hér inn nokkrar línur eftir að hafa lesið fjölmargar færslur þar sem margar ykkar talið bæði illa og ómálefnalega um manninn minn Arnar Þór Jónsson,“ skrifar Hrafnhildur og segist þekkja mann sinn best. „Þau orð sem hafa fallið hér um hann eiga ekki við rök að styðjast og furða ég mig á hve orðljótar samræður hér eru.“
Hrafnhildur segir síðan að samfélagið verði að vanda sig betur í skrifum um aðra og óskar sér að Íslendingar geti „borið gæfa til að bera meiri virðingu fyrir öllum sem hér búa“.
Hér má sjá færsluna í heild sinni:
„Kæru konur. Ég er knúin til að skrifa hér inn nokkrar línur eftir að hafa lesið fjölmargar færslur þar sem margar ykkar talið bæði illa og ómálefnalega um manninn minn Arnar Þór Jónsson. Ég þekki manninn best allra enda höfum við deilt ævinni saman síðan 1990. Þau orð sem hafa fallið hér um hann eiga ekki við rök að styðjast og furða ég mig á hve orðljótar samræður hér eru. Við sem samfélag þurfum að vanda okkur betur í því hvernig við skrifum um aðra og við aðra, einnig hvað við segjum um og við aðra. Ég á mér þá ósk að við Íslendingar getum borið gæfa til að bera meiri virðingu fyrir öllum sem hér búa. Vöndum okkur í samskiptum og eigum uppbyggilegar samræður um menn og málefni. Það er sjálfsagt að gagnrýna og koma með athugasemdir en við skulum ekki hjóla í manninn heldur málefnið, kynna okkur vel hvað er satt og rétt, hvað hefur verið sagt og hvað afbakað. Ég vona að okkur öllum beri gæfa til að velja okkur forseta sem þjóðin sammælist um að sé hæfastur í starfið, höldum friðinn og vöxum sem þjóð.“