Ljóst er að stjórn Félags leikskólakennara tekur ekki undir yfirlýsingar pólitíkusa þar sem haldið er á lofti skyndilausnum „sem engu skila,“ líkt og kemur fram í nýrri ályktun stjórnar félagsins; þar segir að engin formleg vinna sé í gangi í tengslum við kjarasamninga varðandi skipulagningu skólastarfs í leikskólum: Því síður vinna í gangi að skoða að taka fimm ára börn í grunnskóla.
Líkt og kom fram í gær lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins 1.600 vettlinga á gólfið í Tjarnarsal ráðhússins; einn vettlingur átti að tákna hvert barn er bíður eftir leikskólaplássi í borg óttans.
Einar Þorsteinsson borgarstjóri sagði þennan gjörning „vitleysu“ – þetta væru alls og bara alls ekki 1.600 börn á bið – heldur umsóknir, og þar sé mikill munur á. Sagði borgina vera í miðju umsóknarferli; það væri hægt að tala um biðlista er ferlinu lyki.
Oddviti Sjalla, hún Hildur Björnsdóttir, gagnrýndi hversu illa hefði verið tekið í þeirra eigin hugmyndir á kjörtímabilinu er varða lausnir á leikskólavandanum; líkt og heimgreiðslur til foreldra er bíða; og að hefja tilraunaverkefni þar sem börn byrja 5 ára í grunnskóla í stað 6 ára.
Einar borgarstjóri sagði þvert á móti þeirra hugmyndir hafa verið teknar til skoðunar og sú hugmynd að færa börn 5 ára í grunnskóla væri eitthvað sem væri til skoðunar á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga:
„Það er stór menntapólitísk aðgerð, að fara í það, og mikilvægt að vinna það með fagsamfélaginu og foreldrum. Það er enginn sem stendur í vegi fyrir slíkum hugmyndum.“
Stjórn Félags leikskólakennara imprar á í ályktun sinni um þetta mál að þau leggist gegn hugmyndinni um að taka börn fyrr inn í grunnskóla sem einhverskonar lausn á vanda leikskólastigsins; er það sýn félagsins að það sé eigi börnum fyrir bestu.
„Stjórn Félags leikskólakennara leggur til að í stað innihaldslausra skyndilausna og gjörninga sem engu skila að sveitarfélögin uppfylli að fullu undirritað samkomulag og loforð um jöfnun launa á milli markaða. Sé það gert verður um að ræða raunhæfa leið til að gera það sem skiptir öllu máli – sem er að fjölga kennurum á leikskólastiginum,“ segir að endingu í ályktun félagsins.