Ófremdarástand virðist ríkja hjá Vinnueftirlitinu en einelti og kynferðisleg áreitni mælist þar mun hærra en meðaltal annarra stofnanna ríkisins.
Könnunin Stofnun ársins 2022 á vegum Sameykis leiddi í ljós að 13 prósent starfsmanna Vinnueftirlitsins höfðu orðið fyrir einelti en 7 prósent er meðaltalið fyrir allar meðalstórar stofnanir í könnunni. Alls höfðu 10 prósent starfsmanna Vinnueftirlitsins orðið fyrir kynferðislegri áreitni en meðaltalið er tvö prósent. Þá urðu 11 próent fyrir kynbundinni áreitni en meðatalið eru þrjú prósent. Sex prósent starfsmanna Vinnueftirlitsins urðu fyrir ofbeldi en það er sami fjöldi að meðaltali hjá öðrum meðalstórum stofnunum.
Samkvæmt heimildum Mannlífs hefur starfsmannavelta Vinnueftirlitsins verið mikil frá árinu 2019 en Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra skipaði Hönnu Sigríði Gunnsteindóttur sem forstjóra Vinnueftirlitsins í lok árs 2018 en skipun hennar var umdeild á sínum tíma. Stjórnunarhættir Hönnu hafa einnig þótt umdeildir en árið 2019 sögðu fjölmiðlar frá því að þeir starfsmenn sem kvörtuðu undan hegðun stjórnenda gagnvart starfsfólki stofnunarinnar, hefðu verið skikkaðir í tíma hjá sálfræðingi. Samkvæmt heimildum Mannlíf eru starfsmönnum enn bent á sálfræðing ef þeir kvarta undan stjórnendum. Stjórnendur geri það þó í minna mæli en áður.
Þá hefur Mannlíf eftir heimildarmönnum sínum að reglulega séu gerðar kannanir meðal starfsmanna Vinnueftirlitsins um líðan fólks en að ef fólk segist óánægt eða kvarti yfir einhverju, sé það kallað á fund þar sem gert er lítið úr kvörtun þeirra og því boðið að tala við sálfræðing, líkt og segir frá hér að ofan. „Ég veit um starfsmenn sem eru farnir að svara þessum könnunum jákvætt, þvert á það sem þeim í raun finnst, bara til að losna við áreiti stjórnenda,“ sagði einn heimildarmannanna.
Starfsmannavelta stofnunarinnar hefur verið með hærra móti síðustu ár en nokkur dæmi eru um að fólk hafi farið í veikindaleyfi vegna eineltis eða kulnunar í starfi hjá Vinnueftirlitinu.
Vinnueftirlitið ber ábyrgð á málaflokknum er varðar aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundnu áreitni og ofbeldi á vinnustöðum samkvæmt reglugerð nr. 1009/2015.
Mannlíf sendi Vinnueftirlitinu spurningar er varðar einelti og nákvæmar tölur yfir starfsmannaveltu stofnunarinnar í gærmorgun en hefur ekki enn fengið svar.