Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, rithöfundur og fyrrverandi þingkona, segist vera meðal þess þriðjungs þjóðarinnar sem trúir á álfa, líkt og Fréttablaðið greindi frá í morgun. Ekki nóg með það, þá segist hún hafa séð álf á Hornströndum. Einn í gönguhóp Ólínu hvarf þar í þoku og sást aldrei meir. Síðar kom í ljós að enginn hafði séð manninn nema Ólína.
Óhætt er að segja að saga hennar sé bæði dularfull og hrollvekandi, líkt og flestar sögur af huldufólki. „Álfasaga úr eigin reynsluheimi. Í Fréttablaðinu í morgun las ég að þriðjungur þjóðarinnar trúir á álfa. Það er allnokkuð. Fram kemur að fólk úti á landi sé trúaðra í þessum efnum en borgarbúar. Skiljanlegt er það, því að fólk úti á landi er í meiri nálægð við náttúruna og kynjar hennar. En, hér kemur sumsé álfasaga úr eigin ranni. Haldið ykkur,“ segir Ólína.
Hún segir þetta hafa skeð við Atlaskarð. „Fyrir fáum árum fór ég sem fararstjóri, einu sinni sem oftar, með gönguhóp á Hornstrandir. Leiðin lá úr Hlöðuvík um Skálakamb og inn með Hælavík, undir Atlaskarð og áfram út á Hælavíkurbjarg einn sólríkan dag. Við fjallabrúnir er þokugjarnt og þennan dag var tvísýnt um þoku þó að sól skini í heiði á láglendi. Ég lagði því ríkt á við ferðafélagana að halda hópinn og fara ekki fram úr mér (ég er haldin hálfgerðri ofsahræðslu við þoku, af ástæðum sem ekki verða raktar að sinni),“ skrifar Ólína.
Stuttu síðar veitti hún einum manni sérstakan gaum. „Jæja, þegar við erum komin upp Skálakambinn sé ég að maður í gulum stakki – nokkuð nýlegum á að líta – og með göngustafi, er álengdar við mig vinstramegin, kannski 5-10 metra frá mér og gengur örlítið framar. Hann er ákveðinn í fasi og lítur aldrei upp. Ég geri engar athugasemdir við þetta en ákveð að hafa auga með honum þegar nær dagi þokuslæðunum sem voru farnar að teygja sig upp úr Atlaskarði. Göngum við þannig drjúga stund, ferðalangarnir allir í beinni halarófu á eftir mér. Siggi minn rak lestina eins og hans er vandi (hann passar upp á þá sem eru síðastir), en þessi náungi var alltaf í sömu afstöðu við hópinn,“ segir Ólína.
Hún fór að hafa áhyggjur af þessum manni. „Nú förum við að nálgast Atlaskarðið og þar með þokuslæðinginn svo ég ákveð að hóa í þennan utanlestargemling. Stoppa og kalla til hans. Ferðafélagar mínir stansa allir sem einn og stara til skiptist út í heiðina og á mig, furðu lostnir á svip. „Ég vil bara ekki týna honum“ segi ég afsakandi, og kalla aftur – en uppsker enn stærri augu og furðusvipi hjá félögunum. „Hverjum?“ spyr þá sá sem næstur mér stóð. „Nú þessum í gula stakknum“ segi ég í sömu mund og ég sný mér aftur í þá áttina. En viti menn! Maðurinn var þá horfinn. Ekki inn í þokuna þó, því að þokubakkinn var nokkuð langt undan. Þarna var landslag með því móti að í raun var ekkert sem gat hulið ferðalang.“
Ólína segist hafa hugsað þetta lengi og reynt að finna eðlilega skýringu. „Hvað hafði orðið af manninum? Ég leit yfir hópinn, hélt að hann hefði kannski stokkið inn í hann aftur (þó það hefði verið ólíkleg að honum tækist það á örfáum sekúndum). Þar var enginn gulur stakkur. Maðurinn var einfaldlega horfinn eins og dögg fyrir sólu eftir að hafa fylgt okkur alla leiðina úr Skálakambi og innundir Atlaskarð.“
Hún gerði lítið úr þessu við fólkið í gönguhópnum, það væri ekki gæfulegt að farastjórinn ræddi við ósýnilega menn. „Ég ætla ekkert að reyna að lýsa svipnum á fólkinu þegar það horfði á mig og hugsaði sitt um þennan undarlega fararstjóra sem hrópaði á ósýnilega vegfarendur út í loftið. Ég reyndi af veikum mætti að breiða yfir uppákomuna, muldraði eitthvað um missýn og steina (gula steina?) og þrammaði svo áfram í von um að þetta myndi gleymast.“
Hún segir þetta ekki vera hennar einu reynslu af álfafólki, þó þessi saga sé mest krassandi. „Raunar hef ég einstöku sinnum upplifað eitthvað álíka á ferðum um hrjóstur landsins. Meðan ég tók leitarútköll með Skutli mínum (blessuð sé minning hans) kom fyrir, þegar við vorum við leitir í óbyggðum, að ég sá fólk á ferli sem ansaði mér ekki þegar ég kallaði til þess og hvarf svo fyrir næsta leiti án þess að birtast aftur. Ég veit auðvitað ekkert hvernig á því stóð, og dvaldi svosem ekki við þær hugsanir. Meira að segja í hamrabelti Úlarsfells í Mosfellsbæ sá ég eitt sinn tvær manneskjur hverfa inn í klettinn – báðar í nútímalegum útivistarfatnaði (engir skinnskór eða upphlutir þar), en inn í klettinn hurfu þau, annað í gulum stakki, hitt í rauðum,“ segir Ólína en bætir við að hún sé opin fyrir jarðbundnari skýringum.
„Þannski er falin gönguleið þar á bak við klettinn? Gaman væri að vita það – ég hef enn ekki lagt á mig að athuga það með því að ganga þangað sjálf. Og á meðan ég hef ekki gert það, læt ég nægja að líta þangað upp í hvert sinn sem ég ek framhjá, velta fyrir mér hvernig í ósköpunum sé hægt að hverfa baki við hamrabeltið. Það bíður sinna skýringa – en þessar upplifanir ríma sæmilega við niðurstöðurnar sem kynntar voru í morgun um álfatrú landsmanna.“