Gærkvöldið og nóttin var erilsöm hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt dagbók hennar.
Í Vesturbænum barst tilkynning um hugsanlega fíkniefnasölu við fjölbýlishús en var meintur sölumaður dauðans farinn er lögreglu bar að.
Pöddufullum og óvelkomnum aðila var vísað úr stigagangi fjölbýlishúss í Laugardalnum. Þá var sömuleiðis aðila sem svaf ölvunarsvefni utandyra í Laugardalnum vakinn og gekk hann sína leið.
Einstaklingur féll af rafskútu og hlaut við það áverka á andliti. Var hann grunaður um akstur undir áhrifum áfengis.
Óskað var eftir aðstoð á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur vegna stjörnufulls einstaklings. Ekki líkaði aðilanum við afskipti lögreglu og sjúkraflutningamanna en hann varð æstur og ósamvinnuþýður og tók sig til að beit lögreglumann. Var hann vistaður í fangageymslu þar til unnt verður að ræða við hann.
Í Hafnarfirði hafnaði bifreið utan vegar en ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum vímuefna. Þá var tilkynnt um líkamsárás í hverfi 221 í Hafnarfirði.
Lögreglustöð númer 3, sem þjónustar Kópavog og Breiðholtið barst tilkynning um aðila sem gekk ógnandi um með hníf og hafði í hótunum við gangandi vegfaranda. Var hann handtekinn og gistir fangageymslur þar til hægt verður að ræða við hann. Hnífurinn var aukreitis haldlagður.
Óskað var eftir aðstoðar vegna einstaklings sem fallið hafði af hestbaki og var hann fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild til skoðunar.
Í hverfi 110 barst tilkynning um árekstur og afstungu en vitni af atvikinu gat bent á tjónvaldinn sem grunaður er um að hafa ekið bifreiðinni undir áhrifum vímuefna.