Laugardagur 23. nóvember, 2024
-3.2 C
Reykjavik

Eiríkur segist gerendameðvirkur: „Börn sem fremja einelti eru ekki vond“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eiríkur Örn Norðdahl rithöfundur segist gerendameðvirkur í pistli sem hann birtir á vef sínum. Hann segir að næstum alltaf þá séu gerendur ekki illmenni, þó undantekningar séu á því. Að hans sögn átti flestir sig á því að börn sem leggja í einelti séu ekki vond í eðli sínu. Eiríkur segir að oft eigi það sama við um fullorðið fólk.

„Ég er haldinn heilmikilli gerendameðvirkni. Eða gerendaempatíu. Ég finn til með þeim sem beita ofbeldi og held að það komi nánast aldrei til af því að því einu að viðkomandi séu vondir – þótt ég reyndar trúi á tilvist svo til hreinnar illsku líka, ég held bara hún sé fremur sjaldgæf. Svo bætist við þetta allt fremur lítil trú á gildi og gagn refsinga – og fremur mikil trú á því að fólk taki oft bara að sér þau hlutverk sem þeim er skipað í (ef þú segir manni alla ævi að hann sé glæpamaður er hætt við að hann verði það). Stundum held ég að þetta sé bókmenntunum að kenna. Ég hef lesið svo mikið af bókmenntum um gott fólk sem gerir vonda hluti – Glæpur og refsing er uppáhaldsbókin mín. Og hefur alltaf verið sagt að bókmenntir eigi að auka manni empatíu,“ skrifar Eiríkur.

Hann segir að þegar kemur að fullorðnum gerendum þá eigi oft það sama við og þegar börn eru gerendur. „Ég fór að hugsa um þetta í dag út af eineltisumræðunni. Mér finnst fólk skilja þetta (les: vera sammála mér) þegar það kemur að börnum. Að börn sem fremja einelti – hvort sem það er að hóta skólasystkinum sínum lífláti eða hreinlega ráðast á þau í stórum hóp – séu ekki vond og það geri takmarkað gagn að refsa þeim. Það þurfi að takast á við þetta á einhvern heildstæðari hátt – taka utan um alla sem eiga hlut að máli. Bera klæði á sárin. En þegar kemur að fullorðnum finnst mér sú afstaða að einfaldast sé bara að læsa þá inni og henda lyklinum sé að verða vinsælli og vinsælli. Að stinga upp á einhverju öðru – jafnvel bara réttlátri málsmeðferð í samræmi við lög, að sönnunarbyrði sé virt í sakamálum – er þá nefnt gerendameðvirkni. Ég er reyndar á því að það sé miklu minni munur á börnum og fullorðnum en við ímyndum okkur gjarnan. Ég er ekki að segja að málefni barna séu eins og málefni barna eða þau eigi að hantera nákvæmlega eins – en mér finnst að sömu gildi eigi að stýra hvorutveggja,“ segir Eiríkur.

Hann segist þó átta sig á því að þetta sé ekki alltaf svo einfalt. „En svo er þetta auðvitað ekki alveg einfalt heldur. Einsog t.d. í þessum málum á næsta skólastigi sem hafa verið til umfjöllunar – kynferðisbrot í menntaskólum – þar sem getur komið upp sú staða að það þurfi að flytja manneskju milli skóla til þess að vernda þolanda í ósönnuðu máli. Og þá verður aftur spurning hvort senda megi geranda í annan skóla eða hvort viðkomandi hafi fyrirgert rétti sínum til menntunar. Því þótt maður finni til með gerendum trompar sú empatía ekki þá empatíu sem maður finnur til með þolendum,“ segir Eiríkur.

Hann segir auk þess vont hvernig mál sem þessi enda oft í skotgröfum. „Kannski er það sem mér finnst erfiðast í þessum ofbeldismálum – ef málin sjálf eru frátalin, þau eru sárust – þessi tilhneiging að vilja einfalda umræðuna um þau niður í hálfgert liðasport. Oft er bara einsog dómarinn flauti til leiks og við þjóðfélagsþegnarnir tökum okkur stöðu, okkar gömlu góðu stöðu sem við völdum eða var úthlutað, og svo hjökkum við sama hringinn enn eina ferðina – gerendameðvirknis-öfgafemínista-hannúðar-karlhatara uppnefnisrúntinn – án þess að ná neinum sjáanlegum framförum öðrum en að styrkja okkur sjálf í trúnni fyrir næstu umferð. Og þannig dýpka skotgrafirnar ár frá ári.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -