Mér verður oft hugsað til þess hvernig forfeður okkar og -mæður fóru að því að ala upp börn án allrar aðstoðar frá nútímatækni. Spjaldtölvur, snjallsímar, sjónvarp og efnisveitur. Mikill meirihluti foreldra notar tæki til þess að fá augnabliksfrið frá spurningaflóði, gráti, væli og áreiti. Ég get stolt viðurkennt að vera í hópi þessara foreldra. Ekki get ég talið þau skipti sem ég hef troðið síma framan í dóttur mína á hennar sjö ára ævi. „VILTU EKKI BARA HORFA Í SMÁ??“ Þetta hefur aldrei klikkað. Hún á síma og spjaldtölvu sem hún hefur nánast frjálsan aðgang að. Oftast langar hana samt miklu frekar að leika sér, fara í sund eða hitta vinkonur sínar.
Ég var ekki nema 19 ára þegar frumburður minn, dásemdin hún dóttir mín, gerði mig að móður. Það er furðulegt að ganga inn í fullorðinsárin með ungbarn í fanginu. Með óþroskaðan framheila var mér fleygt í eitraða menningu hinnar íslensku móður. Heimilið átti að vera hreint, húsgögnin úr Epal eða Húsgagnahöllinni. Alla barnavöru átti að kaupa í Petit. Barnið á að borða sjálft lífrænt ræktaðan mat, eldaðan frá grunni með smekk um hálsinn sem kostar meira en fullur tankur af bensíni. Nýr bíll, ný íbúð, allt eins og klippt út úr Hús og híbýli. Kynslóð Instagram-móðurinnar. Mikilvægast af öllu var þó skjátíminn. Helst átti hann að vera enginn og aldrei – undir nokkrum kringumstæðum – átti hann að fara yfir hálftímann.
Tvítug reyndi ég að fylgja reglum Instagram-mæðranna. Ég þráði ekkert heitar en að vera góð og gild mamma…
Lesa meira