Fuglaflensa greindist í mávi sem fannst við Reykjavíkurtjörn en fuglinn var fangaður og aflífaður síðar. Birgitte Brugger, sérgreinadýralæknir hjá MAST, telur ekkert að óttast fyrir almenning eins og staðan er í dag.
Samkvæmt frétt RÚV er um fyrstu greiningu fuglaflensu í villtum fugli á höfuðborgarsvæðinu á þessu ári en Brugger segir vöktun góða við tjörnina og sér ekki ástæðu til að bregðast sérstaklega við þessum tíðindum.
„Við teljum þess vegna, bara eins og staðan er, að það séu ekki margir fuglar sýktir. Af því að tilkynningar hafa verið svo fáar. Okkar vöktun byggist fyrst og fremst á því að við fáum að vita ef veikur eða dauður villtur fugl finnst,“ sagði Birgitte við RÚV um málið.
„Þetta er sem sagt ekki mikil smithætta fyrir fólk eins og er, en við viljum ekki gefa veirunni heldur tækifæri til að geta aðlagað sig að öðrum dýrum, spendýrum og fólki. Þess vegna er bara mikilvægt að við snertum ekki dýrin, ekki veiku fuglana.“
Þá hvetur MAST almenning til að tilkynna alla dauða og veika fugla til stofnunarinnar.