Líkur á nýju eldgosi aukast með hverjum degi segir í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
„Um 730 jarðskjálftar hafa mælst umhverfis kvikuganginn frá því á föstudaginn 22. desember, þar af mældust tæplega 40 jarðskjálftar stærri en 1,0. Stærsti skjálftin á tímabilinu mældist 2,1 að stærð þann 26. desember, norðan við Hagafell,“ segir meðal annars í tilkynningunni.
„Land heldur áfram að rísa við Svartsengi og er hraðinn mjög svipaður og var fyrir eldgosið 18. desember. Þetta þýðir að kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi, og eru líkur á að það leiði til annars kvikuhlaups og einnig eldgoss. Líkanreikningar benda til þess að um 11 milljónir rúmmetra af kviku hafi farið úr kvikuhólfinu undir Svartsengi og inn í kvikuganginn sem myndaðist þann 18. desember og endaði í eldgosi.“
Ljóst er að þetta eru ekki ánægjulegar fréttir fyrir íbúa Reykjanesskaga en íbúar Grindavíkur hafa þurft að lifa í mikilli óvissu undanfarnar vikur. Líklegast er talið að ef gjósi aftur muni það gerast á milli Stóra-Skógfells og Hagafells.
Þá birti Veðurstofan mynd, sem hægt er að sjá hér fyrir neðan, af tímaröð fyrir GPS stöðina Svartsengi en hún sýnir breytingar síðustu 90 daga Bláa línan sýnir innskotið 10. nóvember og rauða línan sýnir eldgosið 18. desember. Hver punktur er 24 klst meðaltal og lóðrétti þátturinn sýnir vel landrisið við Svartsengi.