Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út í gærkvöldi eftir að lögreglu barst tilkynning um eld í húsnæði í Hafnarfirði. Þegar komið var á vettvang kom í ljós að húsráðandi hafði verið með logandi kyndil að framkvæma einhvers konar andlega athöfn. Engar skemmdir hlutust af athöfninni. Síðar um kvöldið var lögregla kölluð til vegna slagsmála milli tveggja aðila í miðbænum. Fólkið hafði látið sig hverfa áður en lögregla kom á vettvang.
Maður í annarlegu ástandi áreitti gesti á hóteli í miðbænum en var farinn þegar lögregla mætti. Annar maður lét illa á veitingastað í sama hverfi og ógnaði þar gestum. Lögregla mætti á vettvang og vísaði manninum út án vandræða.
Í Grafarvogi stal ósvífinn aðili bensíni af vöruflutningabíl. Maðurinn náðist og var settur í fangageymslu lögreglu. Annar þjófur stal bakpoka með fatnaði og persónulegum munum í íþróttamiðstöð í Laugardal. Málið er nú í rannsókn.