Í nóvember árið 1978 braust út eldur í fiskvinnsluhúsinu Eyjaberg í Vestmannaeyjum. Eldurinn kviknaði á efstu hæð hússins en honum varð fyrst vart á neðstu hæð hússins þegar starfsfólk tók eftir reyk koma niður stigann. Slökkviliðið var fljótt á staðinn en fljótlega kom í ljós að einn starfsmann vantaði, Vignir Sigurðsson vélsstjóra en hann hafði verið við vinnu á verkstæði á efstu hæðinni. Fannst hann ekki fyrr en 45 mínútum eftir að slökkviliðið mætti á vettvang en var hann þá látinn. Hafði hann ætlað sér að slökkva eldinn
en skyndileg reykmyndun lokað útgönguleiðum fyrir hann. Vignir var 44 ára er hann lést en hann lét eftir sig konu og þrjú börn.
Morgunblaðið fjallaði um hið hræðilega slys þann 7. nóvember 1978:
Beið bana í eldsvoða í EYJUM
Fiskvinnslustöðin Eyjaberg stöðvast vegna reyk- og brunaskemmda
Það hörmulega slys varð í Vestmannaeyjum s.l. sunnudag að 44 ára gamall maður, Vignir Sigurðsson vélstjóri, beið bana í eldsvoða sem upp kom í fiskvinnsluhúsinu Eyjaberg. Eldsupptök eru ókunn. Allt bendir til þess að Vignir hafi án þess að láta vita af sér, ætlað að reyna að slökkva eldinn sem var laus á geymslulofti í húsinu, en skyndileg reykmyndun lokað fyrir honum leiðir út.
Þegar eldsins varð vart var starfsfólk hússins við vinnu á miðhæð og neðstu hæð hússins, en Vignir var við vinnu á verkstæði á efstu hæð. Eldsins varð fyrst vart á neðri hæðunum þegar reykur kom niður stigana og var eldurinn þá laus á geymslulofti fyrir ofan verkstæðið og mikill reykur. Slökkviliðið kom á vettvang laust fyrir kl. 5 og fannst Vignir ekki fyrr en um 45 mín. síðar uppi á geymsluloftinu en þangað hafði hann farið með slökkvitæki. Rannsóknarlögreglumaður úr Reykjavík var fenginn til þess að kanna eldsupptök. Vignir Sigurðsson lætur eftir sig eiginkonu og þrjú börn. Að undanförnu hefur verið unnið við síldarfrystingu og flökun í Eyjabergi, en fjárhagslegt tjón af völdum brunans er mjög mikið og er ekki hægt að vinna í húsinu eins og það er. Taldi Sigurður Þórðarson forstjóri Eyjabergs að það myndi taka a.m.k. tvo mánuði að gera húsið klárt fyrir vinnslu á ný. Húsið er stórskemmt af sóti og .einnig þarf að framkvæma mikla smíðavinnu, gera við þakið, smíða nýja kaffistofu og hreinsa og mála allt húsið í hólf og gólf.