Eldur Smári Kristinsson, formaður Samtakanna 22, mun halda erindi á ráðstefnunni The Bigger Picture sem fer fram í Portúgal næstu helgi.
Ráðstefnan er á vegum Genspect samtakanna en þau hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir níð í garð trans fólks og hafa hin virtu mannréttindasamtök Southern Poverty Law Center sagt Genspect vera haturssamtök. Þá hafa Samtökin 22 einnig verið kölluð haturssamtök. Anna Kristjánsdóttir, ein fyrsta trans kona Íslands, hefur sagt að eina sem samtökin hafi á stefnuskrá sinni sé að hatast út í trans fólk. Samtökin 22 segjast hins vegar baráttusamtök fyrir homma og lesbíur en tæplega 300 samkynhneigðir einstaklingar skrifuðu undir bréf í fyrra þar sem var sagt að samtökin töluðu ekki fyrir hönd þeirra og væru ekki í raun ekki hagsmunasamtök fyrir samkynhneigt fólk.
Þá hefur Eldur verið sakaður um að hvatt Uglu Stefaníu Kristjönu Jónsdóttir, trans konu og aktívista, að fremja sjálfsvíg en hann neitaði því viðtali við Heimildina.
Tekur mannréttindasamtök ekki alvarlega
Mannlíf hafði samband við Eld til að spyrja hann út í ráðstefnuna og erindi hans.
„Mér finnst ekkert um það,“ sagði Eldur þegar hann var spurður hvað honum fyndist um að Southern Poverty Law Center flokki Genspect sem haturssamtök. „Ég veit ekki til þess að neinn með viti taki Southern Poverty Law Center alvarlega á síðustu árum.“
En hvernig kom það til að Eldur haldi erindi á þessari ráðstefnu?
„Ég hef í krafti formennsku minnar hjá Samtökunum 22 sem eru eina hagsmunafélag lesbía og homma á Íslandi [innskot blaðamanns – Samtökin 78 eru einnig hagsmunasamtök homma og lesbía á Íslandi] átt í góðum samskiptum við Genspect eins og er raunin með fleiri félög bæði hérlendis og erlendis. Til að mynda hefur Genspect (og fleiri félög) setið með okkur á nefndarfundum á Alþingi svo dæmi séu tekin. Ég er beðinn um að ávarpa ráðstefnuna í Portugal m.a. vegna sniðgöngu fjölmiðla á málþingi okkar sem átti að vera í fyrra, sniðgöngu fjölmiðla á WPATH lekanum sem við áttum hlutdeild að m.a. í samvinnu við Genspect og héldum blaðamannafund um í Reykjavík í vor.“
Segist vera heiðarleg manneskja
„Þessi þátttaka mín samræmist gildum mínum sem samkynhneigðs karlmanns og sem heiðarlegri manneskju fullkomlega,“ sagði Eldur þegar hann var spurður út í hvernig það samræmist gildum samtaka sem segjast berjast fyrir réttindum homma og lesbía að formaður þeirra tali á þessari ráðstefnu.
„Grunngildi Genspect eru mjög í takti við okkar. Genspect hefur fimm grunngildi sem eru í fyrsta lagi að einungis gagnreyndum meðferðum sé beitt og að rannsóknir standist kröfur vísindasamfélagsins. Í öðru lagi eru þau pólitískt óflokksbundin. Í þriðja lagi hvetja þau til frjálsrar og opinnar umræðu þar sem fjölbreytileiki skoðana fær að njóta sín. Þau eru einnig á móti allri forræðishyggju og í fimmta lagi er verndum og upplýst samþykki lykilatriði í starfi þeirra. Á þessari ráðstefnu eru fjölmargir mjög þekktir einstaklingar sem koma fram og það er mikill heiður bæði fyrir mig persónulega og fyrir Samtökin 22 að fá að ávarpa þessa ráðstefnu.“
En um hvað er fyrirlesturinn?
„Erindið mitt heitir „A country captured by Queer Theory. Dangers of Self-ID“ eða Land í fjötrum Hinseginfræða. Ógnin af lögum um kynrænt sjálfræði. Í erindi mínu fer ég um víðan völl um íslenskt samfélag og sýni í máli og myndum hvernig æðstu stofnanir, stjórnsýsla og ýmisleg hagsmunasamtök hafa verið tekin yfir af hugmyndafræðingum og samfélagssáttmálar og stefnur settar úr skorðum,“ sagði Eldur að lokum.