Lögregla hafði afskipti af manni í hverfi 105 í gærkvöldi sem grunaður er um vörslu fíkniefna. Síðar um kvöldið barst lögreglu tilkynning um umferðaróhapp í sama hverfi en samkvæmt dagbók lögreglu urðu engin slys á fólki. Í miðbæ Reykjavíkur slasaðist einstaklingur eftir að hafa dottið af rafhlaupahjóli. Þá segir að viðkomandi hafi mögulega rotast við fallið og var hann fluttur á bráðamóttöku í kjölfarið.
Í Breiðholti þurfti aðstoð slökkviliðs og lögreglu eftir að áhyggjufullur nágranni sá reyk frá íbúð. Þar hafði íbúinn gleymt að slökkva undir potti á eldavél með þeim afleiðingum að það kviknaði í pottinum. Slökkviliðið mætti á vettvang og slökkti eldinn. Fjórir ökumenn voru stöðvaðir í nótt vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Einn reyndist vera bæði ölvaður og undir áhifum fíkniefna.