Elías Vilhjálmur Einarsson veitinga- og leiðsögumaður lést 27. nóvember síðastliðinn á Sólvangi í Hafnarfirði, 81 árs að aldri.
Foreldrar Elíasar voru hjónin Gunnþórunn Erlingsdóttir, húsmóðir og Einar G. Guðmundsson, járnsmiður. Systur Elíasar eru þær: Kristín Sveinbjörg, f. 1933, sem hefur búið í Osló frá 1956. Hún á eina dóttur og einn son. Hafdís Einarsdóttir, f. 1935, d. 2024, en hún bjó lengst af í Reykjavík. Hún eignaðist tvo syni og eina dóttur.
Elías ólst upp á Frakkastíg 24 með stórfjölskyldu sinni í föðurætt, en afi hans byggði húsið. Hann gekk í Austurbæjarskóla og fór síðan í Alþýðuskólann á Eiðum, þaðan sem hann lauk gagnfræðaprófi 1958. Hann útskrifaðist sem framreiðslumaður frá Hótel- og veitingaskólanum 1964, hlaut skipstjórnarréttindi hin minni 1973, einkaflugmannsréttindi 1984 og útskrifaðist sem leiðsögumaður frá Leiðsöguskóla Menntaskólans í Kópavogi 2016. Á starfsferli sínum vann Elías við ýmis framreiðslustörf á hótelum og veitingastöðum bæði hérlendis og erlendis, var á öllum gerðum fiskiskipa og báta og starfaði um tíma sem flugþjónn hjá Air Viking. Hann stofnaði og rak Kremgerðina um árabil og var starfsmaður í Arnarhvol. Hann var forstöðumaður Ráðstefnusala ríkisins í Borgartúni 6, Rúgbrauðsgerðinni, í 27 ár og annaðist rekstur Hótel Valhallar á Þingvöllum á árunum 2002 til 2005.
Eftir að Elías hætti veitingarekstri starfaði hann sem leiðsögumaður, sem hann hafði mikla ánægju af. Hann bjó yfir einstakri frásagnargáfu og var frábær sögumaður. Hann var fróður um land og þjóð, stálminnugur og með sérstakan áhuga á norrænni goðafræði. Á yngri árum keppti Elías á skíðum og var alla tíð góður skíðamaður. Hann spilaði brids með félögum sínum að minnsta kosti einu sinni í viku og var einnig mikill golfari, á meðan heilsan leyfði. Árið 2019 fór Elías að finna fyrir máttleysi í fótum og greindist með MND-sjúkdóminn árið 2020. Hann naut umönnunar heima með hvíldarinnlögnum inn á milli næstum til æviloka en dvaldi undir það síðasta á hjúkrunarheimilinu Sólvangi þar sem hann lést. Hugurinn hélst skarpur og frjór alla tíð og naut sköpunargáfan sín í ljóða- og kvæðagerð eftir að líkamsþrekið þvarr.
Eftirlifandi eiginkona Elíasar er Ólöf G. J. Eyjólfsdóttir (f. 1942), húsmóðir, sem starfaði einnig með Elíasi í Rúgbrauðsgerðinni. Börn Elíasar eru Þórunn Scheving, dósent (f. 1966), gift Ragnari G. Kristjánssyni, og eiga þau einn son. Sóley, framkvæmdastjóri (f. 1967), gift Hilmar Jónssyni, og eiga þau fjögur börn. Eyjólfur Einar, matreiðslumaðuri (f. 1971), giftur Sigríði Kristínu Helgadóttur, og eiga þau fjórar dætur. Helgi Fannar, flugvéltæknir (f. 1974), í sambúð með Lísu Sólrúnu, og eiga þau saman sex börn. Laufey, listakona (f. 1979), og á hún tvö börn. Langafa börnin eru sex talsins.
Elías verður jarðsunginn 19. des kl. 13:00 í Hafnarfjarðarkirkju