Elín Pálmadóttir blaðamaður er látin, 95 ára að aldri. Eftir að hafa lokið stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík, árið 1947, hóf hún nám við Háskóla Íslands þar sem hún lærði ensku og frönsku. Elín starfaði meðal annars fyrir utanríkisþjónustuna í sendiráðinu í París þar sem hún kynntist franskri menningu og unni sér vel þar.
Elín hóf störf sem blaðamaður hjá Vikunni árið 1952, og sex árum síðar, fór hún yfir til Morgunblaðsins. Elín lét af störfum árið 1997 en hélt áfram góðu sambandi við blaðið þar sem hún skrifaði bæði greinar og viðtöl. Hún sat í borgarstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá árinu 1970-1978, var kvenréttindakona og þótti afar vænt um íslenska náttúru. Elín var heiðruð fyrir störf sín af öllum helstu náttúruverndarsamtökum landsins en það voru ekki einu verðlaun hennar. Hún hlaut heiðursviðkenningu Blaðamannafélagsins 1992, riddarakross fálkaorðunnar 1995 og var einnig sæmd æðstu heiðursorðu Frakklands, Légion d’honneur, árið 2015. Morgunblaðið greindi frá andláti Elínar í morgun þar sem hún var sögð bæði vinsæl og vinamörg, auk þess að hafa verið frumkvöðull í íslenskri blaðamennsku.