Fimmtudagur 2. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Elísabet í bata eftir að líkaminn reyndi að hafna nýranu: „Bæði röddin og augun voru brostin“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Elísabet Jökulsdóttir er öll að koma til eftir að hafa veikst illa en hún fékk nýverið grætt í sig nýra.

Rithöfundurinn og ljóðskáldið ástsæla, Elísabet Kristín Jökulsdóttir varð fyrir því á dögunum að líkaminn tók upp á því að reyna ítrekað að hafna nýranu sem hún fékk grætt í sig í byrjun janúar. Skrifaði hún nokkrar færslur á Facebook og leyfði þannig fólki að fylgjast með veikindunum. Gaf hún Mannlífi góðfúslegt leyfi til að birta færslurnar, sem eru í raun eins og örsögur, enda Elísabet með betri pennum þjóðarinnar.

„Ég er búin að vera með skjaldbökuaugu í mánuð, örugglega útaf nýrnaaðgerðinni, augun hafa orðið pínulítil og stingandi eða dauf og sorgmædd. Augnlokin hangið yfir einsog óveðursský. Sennilega útaf því að ég hef ekki vitað hvað tæki við og ekki verið tilbúin til að gleðjast almennilega fyrr en nú í fyrradag. Þá kom gleðin en þakklætið kom strax, mjúkt stóreygt þakklæti. En að öðru leyti hef ég verið með skjaldbökuaugu.

*

Það var soldið sérkennilegt hvernig gleðin kom til sögunnar en það kom til mín kona í matsalnum sem spurði hvort ég væri komin með nýtt nýra, ég sagði já og þá sagðist konan vera hér vegna lifrarígræðslu, hún hefði fengið nýja lifur. Og þá varð ég svo glöð að gleðin streymdi um mig, þótt ég þekkti konuna ekki neitt. Ég óskaði henni til hamingju. Og þá hugsaði ég: Elísabet, þér er óhætt að vera glöð vegna nýrans og taka á móti þessu kraftaverki. Og þá skildi ég allt þetta fólk sem er að óska mér til hamingju. Margt fólk sem ég þekki ekki neitt en gleðst vegna mín,“ skrifaði Elísabet þegar hún var farin að verða veikburða.

En svo fór að halla undan fæti og Elísabet búin að vera á spítala í fjóra sólarhringa:

„Búin að vera á spítala í fjóra sólarhringa með sterk ofnæmisbælingar lyf í æð og sýklalyf í hina æðina. Líkaminn hefur reynt að hafna nýranu og Garpur benti mér á að höfnun væri ekki fjarri lagi þegar þessi fjölskylda er annarsvegar 😉En þetta er víst allt á batavegi og ég þigg góðar bænir. Þetta er svona bakslag í seglin.“

- Auglýsing -

Góðar fréttir

Nokkrum dögum síðar var Elísabet með góðar fréttir en nýrnagildið hafði lækkað og allt í rétta átt.

„Góðar fréttir.
Það var bara í nótt sem hjólin fóru að snúast og batinn að gera vart við sig, nýrnagildið (kreatínið) hefur lækkað og ákveðin tegund af hvítu blóðkornunum hækkað. Ég er orðin mjög tæknileg í þessu öllu þótt ég hafi ekki skilið neitt í upphafi. Vona bara að batinn haldi áfram.
Ég þakka ástsamlega, þið eruð æði að senda mér bænir, hvatningu og hlý orð. Ómetanlegt og þrælvirka.“
Í dag birti Elísabet svo enn betri fréttir.

„Jæja, ég er farin að líta betur út, bæði röddin og augun voru brostin, en nú er röddin komin og mér sýndust augun hafa fengið annan svip. Afsakið, ég ætla aðeins að gá. Jújú. Og ég er ekki eins stirð í hreyfingum, ég er bæði búin að vera í hjólastól og með göngugrind en nú er farin að spranga um, varlega. Þetta hefur sannarlega verið stór aðgerð og tekið mikið á andlega og líkamlega og þegar fólk spyr mig: Er þetta ekki allt annað líf, finnirðu ekki breytingu á þér, … þá get ég sagt að minnsti vottur um breytingu hefur tekið sex vikur. Og það er semsagt í dag.“

- Auglýsing -

Mannlíf sendir Elísabeti innilegar batakveðjur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -