Baksýnisspegill kvöldsins er stuttur en skemmtilegur.
Í september 1996 var sjötti bekkur í Eskifjarðaskóla beðinn um að mæta í skólann með eitthvað lífrænt. Hálfdán Helgi Helgason, 11 ára, mætti með fallega plöntu í skólann enda mikill áhugamaður um alls kyns blómarækt líkt og fram kemur í stuttri frétt DV um málið á sínum tíma. Hálfdán hafði fundið fræ innan um páfagaukafóðri sem keypt var fyrir gæludýr hans. Valdi hann plöntuna til sýnis, þar sem hún óx hraðast og var sú fallegasta í safni hans. Hafði hinn ungi herramaður ekki hugmynd um að plantan væri kannabis-planta.
Hér má sjá frétt DV um málið:
11 ára Eskfirðingur: Með kannabis í skólann
Hálfdán Helgi Helgason, 11 ára Eskfirðingur, lenti í þeirri furðulegu aðstöðu á miðvikudag að mæta með kannabisplöntu í skólann þegar bekkurinn var beðinn um að mæta með eitthvað lifrænt með sér. Forsaga málsins var sú að Hálfdán fann fræ í páfagaukafóðri og þar sem hann er mikill áhugamaður um alls kyns blómarækt gróðursetti hann fræið. Reyndist þessi planta spretta hvað best af blómum Hálfdáns og vera hvað fallegast. Farið var með plöntuna til lögreglunnar sem eyddi plöntunni.
Til gamans má geta þess að Hálfdán Helgi Helgason menntaði sig í líffræði og sérhæfir sig í fuglavistfræði. Um þessar mundir er hann staðsettur á Suðurskautinu við rannsóknir.