Laugardagur 21. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Embla og Valgerður eru nýgiftar og hafa þurft að þola fordóma: „Við erum par – ekki systur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Embla Guðrúnar Ágústsdóttir er talskona Tabú, meistaranemi í félagsfræði, stundakennari við Háskóla Íslands, nýgift og á tveggja ára gamlan son. Hún er líka einn af stofnendum NPA miðstöðvarinnar, en NPA stendur fyrir notendastýrða persónulega aðstoð. Hún er með hreyfihömlun og hefur alla tíð upplifað fordóma sem særa mikið.

Embla er viðmælandinn í helgarviðtali Mannlífs sem lesa má hér.

 

Embla kynntist ástinni í lífi sínu árið 2015. Hún var þá búin að kaupa rúmgóða íbúð í Hafnarfirði, var með aðstoðarkonur í gegnum NPA og naut þess að lifa sjálfstæðu lífi.

„Þarna var Tinder frekar nýlega byrjað og ég hafði mikla fordóma gagnvart því. Mér fannst hallærislegt að fólk væri að velja út frá myndum og „swipea“ til hægri eða vinstri. Svo ákvað ég að prófa þetta sjálf en hafði ekki miklar væntingar. Af því að ég var svona skeptísk þá var ég ekkert að velja bara fínar myndir af mér; ég setti inn alls konar myndir og skrifaði smátexta um mig til að athuga hvað myndi gerast. Ég rakst nokkrum dögum síðar á konuna mína, Valgerði, á Tinder,“ segir Embla sem hafði komið út úr skápnum þegar hún var 14 ára. „Við fórum að tala saman. Við áttum báðar ketti og gátum talað heillengi um kettina okkar. Mér leist vel á hana en var ekkert á því að fara að hitta hana. Mér fannst óþægilegt að vera að tala við einhverja konu á netinu. Maður getur á Tinder séð hvað fólk er langt í burtu og það var svo skrýtið að það kom fram að hún væri í tæplega tveggja kílómetra fjarlægð. Ég hugsaði „shit, hún á heima hérna rétt hjá“. Það var líka stressandi ef þetta hefði ekki gengið upp og við værum nágrannar. Ég ætlaði að taka þessu rólega en svo ræddi ég um þetta við vinkonur mínar og þær hvöttu mig til að hitta hana til að athuga hvort það væri eitthvað varið í þetta í stað þess að eyða mörgum mánuðum í að tala við hana í gegnum netið.

Við ákváðum að fara á deit í Reykjavík en ekki Hafnarfirði; við vorum hræddar um að hitta einhverja sem við þekktum. Við fórum á stefnumót og síðan höfum við verið saman.“

- Auglýsing -

Embla segir að það sem hafi heillað sig við Valgerði hafi verið hvað hún var opin og talaði tæpitungulaust um hlutina. „Hún hafði reynslu af félagsmálastarfi, hafði verið í pólitík og hafði metnað fyrir mannréttindum. Það heillaði mig líka að finna eldmóðinn hjá henni. Við töluðum heilmikið saman og það varð ekkert vandræðalegt. Það var gott merki til að byrja með; við ræddum um kettina þegar við höfðum lítið til að tala um.“

Hún hafði reynslu af félagsmálastarfi, hafði verið í pólitík og hafði metnað fyrir mannréttindum

Það kom í ljós að Valgerður bjó með kettinum sínum í kjallaranum í húsi foreldra sinna í næstu götu og það leið ekki á löngu þar til hún og kisan Matthildur voru fluttar inn. „Það var eiginlega kötturinn sem flutti á undan en svo kom Valgerður aðeins seinna. Við tókum okkar tíma í að deita og kynnast en mér fannst vera erfitt að hún myndi flytja inn af því að ég var búin að eyða svo miklum tíma í að berjast fyrir sjálfstæði og mér fannst lífið vera svo þægilegt eins og það var; ég var loksins komin á þann stað að geta gert það sem mig langaði til að gera á mínum forsendum. Mér fannst vera ógnvekjandi að bæta nýrri manneskju inn í líf mitt. Ég upplifði fyrstu mánuðina í sambandinu ekki á bleiku skýi eins og margir tala um. Ég var að reyna að finna út hvernig ég gæti haldið mínu sjálfstæði og jafnframt aðlagað okkar líf saman. Það var gagnlegt að við ræddum um þetta frá byrjun og fljótlega varð þetta auðveldara. Valgerður fetaði þennan veg með mér. Við fundum mjög góða millilendingu og við höfum náð að skapa líf okkar saman mjög vel, sérstaklega síðustu ár. Við erum með lítið barn og vegna Covid þá erum við eiginlega alltaf saman,“ segir Embla en Valgerður er nemandi í þjóðfræði við Háskóla Íslands og hefur tekið þátt í pólitík eins og þegar hefur komið fram. „Hún tók þátt í kosningabaráttunni og var á lista VG í haust.“

Ég var að reyna að finna út hvernig ég gæti haldið mínu sjálfstæði og jafnframt aðlagað okkar líf saman

Embla er spurð hvort þær hafi fundið fyrir fordómum þar sem annar aðilinn í sambandinu er fatlaður.

- Auglýsing -

„Já. Valgerður lendir oft í því að það er talað yfir mig og við hana. Hún er til dæmis spurð hvort ég geti gengið þegar við erum á flugvöllum og það er komið að því að fara um borð. Hún var auðvitað ekki vön þessu og verður yfirleitt reiðari en ég. Þetta er eitthvað sem hefur alveg haft áhrif á líf okkar svo sem eins og áður en við giftum okkur í sumar. Fólk gerir ekki ráð fyrir að við séum par, bæði út af því að við erum samkynhneigðar og líka út af fötlun minni. Þegar við fórum að skoða hringa þá vorum við til dæmis iðulega spurðar hvor okkar væri að fara að gifta sig en ef við hefðum verið gagnkynhneigt par þá hefði verið gert ráð fyrir því að við værum par nema að annað hefði komið fram.“

Þetta særir auðvitað líka.

„Já, algjörlega. Algjörlega. Stundum langar mann til að öskra á fólk eða halda á skiltinu sem við vorum með í druslugöngunni þar sem stendur „Við erum par – ekki systur“ þegar maður situr til dæmis á kaffihúsi. Það er misjafnt hvernig áhrifin eru en maður er alltaf var um sig. Maður þarf alltaf að vera dálítið tilbúinn að díla við þetta. Þegar við vorum búnar að vera saman í tvö ár fórum við saman til útlanda og á leiðinni inn í vélina sneri flugfreyja sér að Valgerði og spurði hvort hún vildi fá litabók fyrir mig. Ég spurði flugfreyjuna hvað hún héldi að ég væri gömul. Hún sagði að litabókin væri fyrir alla. Ég sagði að svo væri ekki; ég sæi að það væru til nokkur eintök fyrir börnin í vélinni. Þá sagði hún að það hefðu allir gaman af því að lita.

Stundum langar mann til að öskra á fólk eða halda á skiltinu sem við vorum með í druslugöngunni þar sem stendur „Við erum par – ekki systur“ þegar maður situr til dæmis á kaffihúsi

Svo settumst við Valgerður niður mjög reiðar. Hvað getur maður gert? Þetta er ótrúlega erfitt. Í augum fólks er ég einhver sem Valgerður er að hugsa um en ekki konan hennar. Við vorum búnar að ákveða að ef flugreyjan myndi labba fram hjá okkur þá myndum við fara í svaka sleik en þessi kona kom aldrei þannig að það gerðist ekki. En maður er alltaf að fá þessa áminningu um að maður sé álitinn barn að eilífu og fólk lítur ekki á mann sem fullgildan þjóðfélagsþegn. Það er ótrúlega lýjandi.“

Embla er í meistaraverkefni sínu að rannsaka fötlun og kynlíf sem og kynvitund. „Ég er sérstaklega að skoða viðhorf til kynverundar fatlaðs fólks. Þetta er svo athyglisvert af því að við erum alltaf föst í þessu að vera álitin börn að eilífu og það hefur svo mikil áhrif á þennan þátt lífsins. Það er ekki gert ráð fyrir að fatlaðir muni eiga maka og börn. Ég hef heyrt að ófatlaðar vinkonur mínar séu undir pressu við að eignast maka og börn en ég hef aldrei verið undir slíkri pressu. Það er ekki þessi pressa á fatlað fólk og fólk verður frekar hissa þegar við eignumst maka. Fólk fær jafnvel skilaboð um að það eigi að vera þakklátt fyrir maka sinn af því að hann sé svo góður að vilja vera með manni. Það er alls konar svona sem ég veit að fatlað fólk þarf að glíma við. Rótin er alltaf sú sama, það er ekki álitið að við séum að leggja neitt til. Eins og við séum alltaf þiggjendur og makar okkar séu að þessu af góðmennsku. Eins og þeir séu einhver líkneski. Það er hins vegar ekki horft á okkur sem tvær manneskjur sem séu jafningjar og séu í sambandi eins og allir aðrir.“

Rótin er alltaf sú sama, það er ekki álitið að við séum að leggja neitt til

Embla og Valgerður á brúðkaupsdaginn.

 

Helgarviðtalið við Emblu má lesa í heild sinni hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -