Fimmtudagur 26. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Emil kjúklingakarl er Pepsi Max fíkill: „Neysla er líklega stærsta vandamálið“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Emil Ólafur Ragnarsson heiti ég, giftur með eitt barn. Búsettur í Hvalfjarðarsveit, fæddur í Reykjavík, uppalinn í Dýrafirði og Kjós. Starfa sem bústjóri á kjúklingabúi. Hef einnig búið hér og þar á höfuðborgarsvæðinu.

Gerir þú verðsamanburð á vörum og þjónustu?

Já, ætli maður geri það ekki, þó er ég ekki með það niðurskrifað í excel skjal. En maður reynir að taka eftir verði á því sem maður kaupir og sjá hvort maður sé að gera góð kaup eða ekki. Þá einna helst á matvöru og eldsneyti.

Hvernig sparar þú í matarinnkaupum?

Það sem hefur virkað best fyrir okkur er að skipuleggja matarinnkaupin vel, vita hvað við ætlum að kaupa áður en við löbbum inn í búðina. Að gera matseðil fyrir vikuna er mjög góð leið til þess að spara, það fækkar búðarferðum verulega mikið og þá eru minni líkur á að dýrir hlutir eins og nammi og snakk rati í körfuna. Við höfum líka passað að elda alltaf matinn sjálf, en ekki kaupa skyndibita og þess háttar. Nema í einstaka tilfellum, enda búum við á þannig stað að það þarf að keyra dálitla leið eftir svoleiðis fæði.

Endurnýtir þú? Ertu með ráð til annarra?

Já, það er alveg hægt að segja að við endurnýtum. Það getur sparað manni nokkrar krónurnar að endurnýta. Við höfum verslað þónokkur notuð húsgögn og hluti yfir ævina á mörkuðum og á internetinu, Bland.is og Facebook. Við höfum endurnýtt t.d. afmæliskort og önnur tækifæriskort með því að klippa notuðu síðuna í burtu og nota baksíðuna á forsíðumyndinni, konan mín á alfarið heiðurinn af þeirri hugmynd, bráðsnjallt alveg. Flestir pokar sem koma inn á heimilið, plastpokar og bréfpokar, eru endurnýttir undir rusl. Líklega er ég að gleyma einhverju.
Hvað hefur þú í huga þegar þú kaupir mat, fatnað og gjafir?
Það fer algjörlega eftir hvað ég er að kaupa, gæði „versus“ verð er mér ofarlega í huga í fata og tækja innkaupum. Það borgar sig ekki alltaf að kaupa það ódýrasta. Oft reynir maður að stíla inn á útsölur og þess háttar. Við höfum líka nýtt internetið í fatakaup og jólagjafakaup, þar sem það er auðveldara að finna góð verð þar. Í matarinnkaupum þá er það líklega svipað, ég reyni að prófa að kaupa ódýru týpuna af flestu sem ég er að kaupa í matinn, eins og t.d. Euroshopper vörurnar. Þær eru í flestum tilfellum ódýrari, en ekki alltaf betri. En maður veit það ekki fyrr en maður prófar. Held mig samt oftast við að kaupa innlenda framleiðslu á kjötvöru, enda starfa ég í þeim geira.
Hverju átt þú erfiðast með að draga úr kaupum á?
Ég er óttalegur snakkari og poppari, Pepsi Max fíkill í þokkabót. Svo er það nikótínið, maður. Þetta eru svona hlutir sem maður hefur reynt að draga úr á lífsleiðinni en hefur átt erfitt með.
Skiptir umhverfisvernd þig máli?
Það er rosalega auðvelt að segja já við þessari spurningu og segjast svo flokka ruslið og skila inn dósum. Dósunum skila ég fyrir peninginn. Ruslið flokka ég því maður verður víst að gera það. En ég hef alltaf verið á þeirri skoðun að flokkun á heimilissorpi sé ekki nóg til þess að segjast vera að vernda umhverfið. Mér finnst mjög skrítið að flokka pappír, sem er svo tekinn og seldur til útlanda, búinn til klósettpappír úr honum, svo er honum siglt aftur til Íslands þar sem við setjum hann í klósettið. Ég sé ekki hvernig það ætti að hjálpa umhverfinu á nokkurn hátt, það býr vissulega til peninga fyrir einhverja, en ekki mig.
Hinsvegar kasta ég ekki rusli út í náttúruna. Og mér þykir mikilvægt að við sem mannkyn verndum umhverfið eins og við getum. Þar þyrftum við fyrst og fremst að pressa á stórfyrirtækin að minnka t.d. plastnotkun og eldsneytisnotkun. En ef við ætlum og viljum lifa í kapítalísku samfélagi þá verður það seint umhverfisvænt, þar sem neysla er líklega stærsta vandamálið í baráttunni við loftslagsvandann. Þannig að ég hugsa að umhverfisvernd skipti mig máli upp að vissu marki, því ég vil geta keypt pasta frá Ítalíu, osta frá Frakklandi, avocado frá Spáni, vín frá Síle o.s.frv. En geri mér grein fyrir því að það er ekki umhverfisvænt. En þá flokka ég til þess að róa samviskuna.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -