Fréttir um aukna verðbólgu og hærri stýrivexti birtast nær daglega hér á landi og frá öðrum löndum. Heimilin eru óneitanlega farin að finna fyrir áhrifum þess í formi hærra matvöruverðs og breytingum vaxta á neyslu- og íbúðalánum.
Í frétt á dr.dk bendir Neytendaráðið í Danmörku að setja þurfi spurningamerki við endurfjármögnun á íbúðalánum. Fasteignaeignendur í Danmörku hafa líkt og hér á landi fundið fyrir hressilegum vaxtahækkunum. Til dæmis hafa lán með föstum vöxtum hækkað frá 1% upp í 5% á síðastliðnu ári.
Bankinn tekur alltaf sitt
Morten Bruun Pedersen, aðalhagfræðingur Neytendaráðsins í Danmörku bendir á að bankarnir hafa hag í því að lántakar breyti lánunum í formi lántökugjalds og uppgreiðslugjalds. Á meðan neytandinn taki á sig kostnaðinn í framangreindum gjöldum auk vaxtahækkunnar. Hann er einnig hræddur um að bankarnir sinni ekki nægilega vel upplýsingagjöf til viðskiptavina sinna.
Neytendasamtökin á Íslandi
Landslagið í lánamöguleikum þar ytra er frábrugðið þó margt svipi til og hér á landi. Mannlíf hafði samband við Neytendasamtökin á Íslandi og spurt var hvort viðlíka úttekt hafi verið gerð til að upplýsa neytendur um stöðuna hér á landi. „Nei, við höfum ekki haft tækifæri til þess, því miður,“ svarar Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, og bendir á að aðstæðurnar séu flóknar fyrir neytendurnar að taka ákvarðanir um.
„Þrátt fyrir að það sé svipuð verðbólga þar og hér þá eru vextir bæði sögulega lægri þar og líka stöðuleiki mun meiri til lengri tíma.“ bendir Breki á um samanburð aðstæðna í Danmörku og Íslandi.
Þróun vaxta
Núna í júní eru vextir á óverðtryggðu íbúðaláni með föstum vöxtum, hjá Landsbankanum, 6.90%, miðað við 70% veðsetningu, og hafa þeir samkvæmt sögulegri vaxtatöflu Landsbankans og hækkað um 2,7% á u.þ.b. 12 mánaða tímabili. Hér má sjá töflu um þróun fastra útlánsvaxta hjá Landsbankanum.
Í maí síðastliðnum voru vextir á óverðtryggðu íbúðaláni með breytilegum vöxtum, hjá Landsbankanum, 5.40% og höfðu hækkað um 1.9 prósent á 11 mánaða tímabili. Ef litið er yfir lengri tíma eru vextirnir í maí 2022 þeir sömu og júlí 2019. Hér má sjá töflu um þróun breytilegra útlánsvaxta hjá Landsbankanum.