Sunnudagur 12. janúar, 2025
6.8 C
Reykjavik

Enginn hefur veitt fleiri rjúpur í einni veiði: „Þetta voru bara náttúruhamfarir hjá rjúpunum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Gestur Mannlífsins að þessu sinni er Indriði Aðalsteinsson bóndi á Skjaldfönn við Ísafjarðardjúp. Búskapur hefur verið á Skjaldfönn í tæp 200 ár í beinan karllegg frá Ólafi Jónssyni frá Hraundal, sem hóf þar búskap árið 1826. Í dag býr Indriði einn á Skjaldfönn og unir hag sínum vel.

Indriði setti sjálfsagt Íslandsmet er hann veiddi rúmlega 200 rjúpur í einni veiði. Voru aðstæðurnar til veiðana all sérstakar.

„Það voru mjög sérstakar aðstæður. Það var búið að vera óskapleg djöfulsins stórhríð tvo dagana á undan. Og einhvernveginn virðist sem norð-austan áttin hafi sópað saman öllum rjúpunum sem voru á Ströndum eða hvaðan sem þær komu. Það er ekki hægt að lísa þessu. Það var hörkufrost. Í frosti og logni þá flýgur hún mjög lítið. Hún hleypur bara á undan manni. Þannig að hún var auðvitað auðveld bráð. En hitt er annað, það var klofófærð. Ég var svo vitlaus að vera ekki á skíðum eða þrúgum eins og ég var oft í. Þannig að ég var alltaf upp í klof í kjarrinu. Og ég bara ekkert með mér, þú berð ekkert með þér 200 rjúpur. Við köllum að setja þær í svokölluð köst. Þú ert svona 20, 30, 40 metra og heldur kannski á tveimur, þremur rjúpum og svo seturðu kastið inn í runna við slóðann. Svo að fálki eða hrafn komist ekki í þær. Og svo sækirðu þær þegar þú ert annað hvort búinn með skotfærin eða birtan farin. Þá kemurðu þeim í bíl eða í skjól þannig að þær geymist þar til þú hefur möguleika á að koma þeim heim. Það var 10 stiga frost. Maður var rennandi blautur af svita bæði upp úr og niður úr. Ég var að verða skotfæralaus og alveg hættur að skjóta nema vera öruggur með þrjár, fjórar í skoti. Það var kallað að sópa. Ég skaut aldrei fugla á lofti og hef aldrei gert. Þegar þú sópar þá leggstu niður og reynir að láta drífuna annað hvort gaddinn eða yfirborð snjósins. Það er kallað að sópa. Þá geturðu fengið nokkuð margar í skoti. Þetta kallaði pabbi að sópa og ég hef þetta eftir honum.“

Og þá var það heimferðin.

„Ég var með minn Landrover tiltækan á veginum. Klukkutíma áður en birtan þvarr þá náttúrulega var ég orðinn skotfæralaus og þá var bara að fara að draga að bílnum á snjóþotu sem ég var með á jeppanum. Og það tók alveg upp undir tvo tíma að koma þessu í bílinn og þá voru nú rjúpurnar farnar að gægjast yfir sætin fyrir aftan mig á leiðinni heim. Afturhlutinn á jeppanum var orðinn það fullur.“

Eftr að heim var komið byrjaði Indriði á að fara í sturtu, til að ná úr sér hrollinum og hafa fataskipti. Og svo gaf hann fénu. „Svo fórum við feðgar að telja úr jeppanum. Það voru 194 rjúpur. Og pabba fannst nú verst, sem gömlum og reyndum rjúpnamanni að ég skyldi ekki fara yfir 200. En svo þegar ég fór daginn eftir, þá fann ég eitt kastið sem mér hafði yfirsést í myrkrinu daginn áður. Þetta var sjö rjúpna kast þannig að þetta fór upp í 201 rjúpu í það heila.“

- Auglýsing -

Er Reynir spurði Indriða hvort þetta væri ekki Íslandsmet sagði hann það vel geta verið. „Já, ja, það voru nú fleiri en ég sem fóru hátt. Ég veit um eina skyttu hérna, Jón á Hróðbergi á Hólmavík sem fékk á annað hundrað líka, 120, eitthvað svoleiðis. Þetta voru bara náttúruhamfarir hjá rjúpunum. Þetta er alveg ótrúlegt. Ég hefði aldrei trúað þessu daginn áður.“

Hægt er að horfa á viðtalið í heild sinni hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -