Enginn slasaðist er féll snjóflóð úr Böggvistaðafjalli ofan við Dalvík. Tveir sjúkrabílar voru sendir af stað frá Akureyri sem og björgunarsveitir kallaðar út sem og þyrla Landhelgisgæslunnar. Þá var aðgerðastjórn virkjuð á Akureyri.
Upplýsingafulltrúi Landsbjargar, Jón Þór Víglundsson sagði í samtali við RÚV að ekki hafi í fyrstu verið ljóst hvort einhver hafi orðið fyrir flóðinu. Samskiptastjóri Almannavarna, Hjördís Guðmundsdóttir staðfesti svo síðar að allir viðbragðsaðilar hafi verið kallaðir til baka, eftir að ljóst var að enginn hafði lent í flóðinu.
Böggvistaðafjall er vinsælt til skíðanotkunar en Elín Björk Unnarsdóttir, framhaldsskólakennari og veðurfræðingur á Dalvík, sagði í samtali við fréttastofu að líklegast hafi flóðið verið af mannavöldum þar sem heiðskírt sé og glampandi sól.