Gunnar Smári Egilsson, forsprakki Sósíalistaflokksins, gerið hríðlækkandi hlutabréfaverð í íslenska lággjaldaflugfélaginu Play að umtalsefni í nýrri færslu á Facebook. Í ljósi þess að hlutabréfin hafi fallið um helming á einu ári segir hann fjárfesta horfa til félagsins með hryllingi.
„Hlutabréfaverð í Play hefur fallið um helming á einu ári. Og það féll enn í gær og í dag eftir tilkynningu um afkomu sem var mun lakari en áætlanir sögðu til um. Og félagið tapaði 430 á þriðja ársfjórðungi, frá júlí-september, sem að öllu jöfnu ætti að vera besti ársfjórðungur flugfélags,“ segir Gunnar Smári á Facebook og heldur áfram á Samstöðinni:
„Fyrir ári síðan var hlutafé Play metið á 19,8 milljarða króna. Í dag er það metið á 9,9 milljarða króna. 9,9 milljarðar króna eru farnir til Money Heaven, eins og maður orðaði það um árið.
Í júní 2021 voru boðnir út 222 milljón hlutir í Play og seldust þeir á 4,3 milljarða króna. Nú er verðmæti þessara hluta 3,1 milljarður króna. Þau sem tóku þátt í útboðinu fyrir tæpu einu og hálfu ári hafa tapað um 1,2 milljarði króna.
Nú vill Play sækja meiri pening. Stefnt er að sækja 2,3 milljarða króna, sem miðað við gengi dagsins væri útboð á um 165 milljón hlutum. Kaupendur í þessum tveimur útboðum ættu eftir það um 45% af hlutum félagsins en upphaflegir stofnendur og fjárfestar 55%.
En það á eftir að koma í ljós hvort verð á hlutum í Play haldist og áhugi sé jafn mikill á þessu félagi og stjórnendur þess vona. Ef verðið fellur er líklegt að nýir hluthafa vilji fá meiri áhrif innan Play og ekki víst að stofnendur geti haldið meirihluta atkvæða meðan loforð þeirra um árangur ganga ekki eftir.
Myndin er af slagorði Play, sem í dag hljómar fyrir fjárfestum eins og nafn á hryllingsmynd.“