Snjóflóð féll í Þveráröxl í Fnjóskadal í dag en fjórir erlendir skíðamenn voru á svæðinu. Einn þeirra lenti í flóðinu og slasaðist á fæti.
Lögreglan á Norðurlandi eystra sendi frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að fjórir erlendir skíðamenn hafi verið í Fnjóskadal þegar snjóflóð féll þar en tilkynning um það barst klukkan 15:38. Einn þeirra slasaðist á fæti. Ekki er vitað hvort frekari slys hafi orðið á fólki en aðgerðarstjórn hefur verið virkjuð á Akureyri og hafa björgunarsveitir á Grenivík, Akureyri og aðrar björgunarsveitir í Eyjafirðinum verið kallaðar út. Þá var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út.
„Miðað við þær upplýsingar sem sem nú liggja fyrir voru fjórir erlendir skíðamenn á ferð á þessum stað og mun einn þeirra hafa orðið fyrir flóðinu. Sá er slasaður á fæti. Ekki er vitað til þess að önnur slys hafi orðið á fólki,“ segir í tilkynningunni.