Fimmtudagur 9. janúar, 2025
-4.2 C
Reykjavik

Erling listamannaformaður: „Við höfum eignast menningarráðuneyti!“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Erling Jóhannesson, formaður Bandalags íslenskra listamanna sér sóknarfæri í því að færa listir og menningu í nýtt ráðuneyti. Það að setja saman viðskipti, ferðaþjónustu og listir hefur farið öfugt ofan í listamenn, en þeim finnst að listin þurfi að fá að vera til listarinnar vegna, ekki bara sem féþúfa.

Menningarmál verða ekki lengur hliðarmálaflokkur

Hann telur ágætt að hreyfa við stjórnsýslunni. „Það eitt og sér verður til þess að við förum öll aðeins upp á tærnar.“ Þá telur hann stöðu menningarmála sterkari, þau verði ekki lengur hliðarmálaflokkur í menntamálaráðuneytinu heldur jafnvíg viðskiptum og ferðamálum í  nýju ráðuneyti.

„Við deilum ráðherra með öðrum málaflokki en mér finnst mjög afgerandi mörk á milli þessara tveggja málaflokka, meðan þeir voru mun nátengdari í gamla ráðuneytinu. Við getum talað með afgerandi hætti um að við höfum eignast menningarmálaráðuneyti.“

Ráðuneyti ferðamála-, viðskipta- og menningarmála verði heimahöfn listanna, en listir og skapandi greinar eigi líka samleið með ráðuneyti vísinda, iðnaðar og nýsköpunar þar sem hugverkageirinn er áberandi. „Ég held við höfum bara eignast tækifæri til að endurmeta okkur menningarstjórnunarlega.“

Þetta eru tvö átakahugtök; menning og viðskipti

„Þetta var svona fyrsta viðbragð, þetta eru tvö átakahugtök í umræðunni til margra ára en svo eftir því sem deginum í gær vatt fram og maður fór að lesa betur sáttmálann, þá er bara fjöldi sóknarfæra í þessu,“ segir Erling Jóhannesson, formaður Bandalags íslenskra listamanna í frétt á RÚV.

Í stjórnarsáttmálanum er fjallað um menningu sem mikilvægt aðdráttarafl til að laða hingað ferðamenn. Erling setur vissa fyrirvara við það og segir að:

- Auglýsing -

„það er klár áhersla en trúverðugleiki menningar, sem þáttar í ferðaþjónustu, er að menningin sé sjálfstæð og lifi lífi óháð ferðaþjónustunni. Við þekkjum það öll þegar við sjáum yfirborðskennda menningarstarfsemi á okkar ferðamannastöðum, við erum fljót að greina það. Menningin er fyrst og fremst til þess að auðga samfélagið, innviði og samskipti þeirra sem búa þar. Ferðamenn hafa aðgengi að því og það er fyrst og fremst áhugavert vegna þess að það er lífrænt og tilheyrir samfélagi.“

Bindur vonir við bætta afkomu – kostur að hafa Lilju áfram

Í stjórnarsáttmálanum er talað um afkomu listamanna, bæði í tengslum við það að koma fjölbreyttari stoðum undir efnahagslífið og efla faglega verkefna – og starfslaunasjóði. Erling bindur miklar vonir við að fjárhagsstaða listamanna batni á kjörtímabilinu.

Það skipti í þessu samhengi máli að hafa sama ráðherra áfram. „Lilja Dögg Alfreðsdóttir var í þessum aðgerðum, hún var í þessu ölduróti með okkur undanfarin tvö ár. Fjöldi verkefna sem við vorum í samtali við mennta- og menningarmálaráðuneytið um lentu í biðstöðu en við búum að þeirri vinnu og þeim trúnaði sem var kominn milli okkar, ráðherra og starfsfólks, við að klára að efla starfslaunasjóðinn og innviði listgreinanna. Það sparar okkur líklega nokkra mánuði.“

- Auglýsing -

Saknar einskis

Áform um stefnumótun eru nokkuð áberandi í sáttmálanum, það á til dæmis að ráðast í heildarendurskoðun á tónlistargeiranum, vinna þarfagreiningu vegna óperustarfsemi með það að markmiði að setja á laggirnar Þjóðaróperu og hrinda í framkvæmd aðgerðaáætlun í menningarmálum til ársins 2030. Erling segir þetta hluta af þeim verkefnum sem voru í vinnslu en var slegið á frest í faraldrinum. Það þurfi raunar að endurskipuleggja fleiri geira, byggja upp miðstöð myndlistar og klára stefnumótun í kvikmyndagerð. „Það verður af nógu að taka.“

Hann segist í raun ekki sakna neins í sáttmálanum. „Ég held við séum þarna með verkefni sem er raunhæft að klára og andi alls þessa sáttmála er einhvern veginn andi nýsköpunar, andi nýs samfélags sem byggir á hugverkadrifnum greinum þar sem listirnar og menningin eru í aðalhlutverki.“

 

Hér er hægt er að nálgast fréttina í heild sinni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -