Erna Ýr Öldudóttir, blaðamaður og efasemdarmanneskja um loftslagsmál, kemur Katrínu Jakobsdóttir forsætisráðherra til varnar á Facebook. Katrín er sögð hafa svikið söngkonuna Björk Guðmundsdóttur á ögurstundu um að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum. Svo virðist sem Katrín hafi vaxið í augum Ernu Ýrar við þetta.
Erna Ýr deilir pistli eftir hinn vafasama pistalhöfund Páll Vilhjálmsson en hann segir Katrínu hafa staðið af sér „árás“ frá RÚV, Stundinni og Kjarnanum. Hann kallar þessa þrjá fjölmiðla „RSK-miðla“. Páll nefnir hvergi að Björk sagði frá svikinum í breska blaðinu The Guardian og að allir fjölmiðlar landsins hafi vísað í þá frétt.
Erna Ýr deilir orðum Páls á Facebook sem skrifar: „RÚV, Stundin og Kjarninn, RSK-miðlar, stóðu fyrir samræmdum fréttaflutningi til að gera hlut Katrínar forsætis sem verstan. Atlagan stóð yfir frá tíunda tímanum í gærmorgun og fram yfir hádegi þegar hún var orðin pínleg.“
Erna Ýr heldur svo áfram og skrifar: „Þetta mistókst, því mér sýnist fólk frekar hafa orðið pirrað á Björk og Gretu Thunberg. Björk sagði að Katrínu gengi illa að innleiða loftslagsalræðið með sveitavargana eða „rednecks“ á bakinu (hverjir eru það? íslenska þjóðin?), í viðtalinu við The Guardian og gaf í skyn að það væri svo erfitt fyrir Katrínu að vera bæði kona og forsætisráðherra! Gretu Thunberg þolir síðan enginn. Bæði Björk og Greta eru loftslagshræsnarar par excellance.“
Hún sparar svo ekki samsæriskenningarnar. „Það varð einnig ljóst að Björk, eins og Greta Thunberg, virðist tengjast World Economic Forum (WEF), sem hamast nú við að framkalla „The Great Reset“ með tilheyrandi hörmungum fyrir heiminn. Þetta er „Endurræsingin mikla“ þar sem að skapað skal draumaríki á rústum þess sem eyðilagt er. Þetta er hugarfóstur sértrúarsafnaðar milljarðamæringanna í Davos, og þeim finnst eyðileggingin sem þarf fyrir innleiðingu draumaríkisins greinilega ekki ganga nógu hratt fyrir sig hér á klakanum.
„Þannig stjakar hún við forsætisráðherranum í viðtali og kippa af fjölmiðlum sem virðast öðrum fremur elska glópalistamálefnin, taka boltann í samtaka áhlaupi á forsætisráðherrann. Við höfum séð viðlíka árásir erlendis frá áður, á æðstu embættismenn þjóðarinnar, þegar þeir hafa ekki þóknast erlendum auðhringjum – nú eða dregið lappirnar við að gera það sem þeim hefur verið fyrirskipað erlendis frá. Mér finnst þetta lykta nokkuð svipað, þó að Páll Vilhjálms hafi komist að annarri niðurstöðu sem er alls ekkert ólíklegri – nema báðar gætu verið réttar.
Fyrir hverja ætli Björk hafi t.d. gert plötuna Utopia (2017) sem fjallar um transhumanism? Það er amk. mjög vinsælt málefni hjá WEF…“