Laugardagur 21. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Eva minnist þess er fréttir af andláti Hauks bárust frá Sýrlandi: „Síminn hringdi án afláts“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í gær voru liðin sex ár frá því að frétt um mögulegt andlát Hauks Hilmarssonar barst til Íslands. Móðir hans skrifaði hjartnæma færslu af tilefni þeirra tímamóta á Facebook.

Eva Hauksdóttir lögmaður skrifaði Facebook-færslu í tilefni þess að í gær voru liðin sex ár frá því að fréttir af andláti sonar Evu, Hauks Hilmarssonar, bárust frá Afrin-héraði í Sýrlandi. Haukur, sem var aðgerðarsinni og hugsjónamaður, var þar staddur til að hjálpa Kúrdum sem þar bjuggu, við að verjast innrás Isis-liða. Hauki og félögum hans tókst að sigrast á hryðjuverkamönnunum en þá hóf her Tyrklands loftárásir á svæðið og er talið að Haukur hafi látist í einni slíkri árás. Lík hans hefur þó aldrei fundist.

„Við höfum hundrað leiðir til að minnast Hauks. Við minnumst hans á hverjum degi, á einhvern hátt, og mér finnst enn í dag eins og hann gæti hvenær sem er bankað upp á. Ég er ekki einu sinni viss um að ég yrði neitt hissa ef hann tæki upp á því að ganga aftur eða ef kæmi í ljós að hann væri á lífi eftir allt saman. Það er enn hægt að fletta honum upp í þjóðskrá svo hann er enn á lífi að áliti ríkisvaldsins.“ Þannig hefst færsla Evu og heldur svo áfram: „Fyrir réttum 6 árum sat ég við borðstofuborðið okkar í Glasgow og reyndi að henda reiður á fréttum dagsins, sem voru samt sem áður frekar einfaldar. Síminn hringdi án afláts, einkaskilaboðum rigndi inn á messenger á Facebook. Ég var hætt að svara öðrum en mínum allra nánustu.“

Eva segir að maðurinn hennar, Einar Steingrímsson hefði verið í vinnuferð í útlöndum er fréttirnar bárust en að systkini hennar hefðu verið væntanleg daginn eftir.

„Einar var í vinnuferð í útlöndum. Systkini mín væntanleg morguninn eftir. Ég hafði sagt þeim að það væri engin þörf á að þau væru að þvælast þetta. Mér þótti vænt um að þau vildu koma og vera hjá mér en mér fannst ég, í fyllstu einlægni, ekki hafa neina þörf fyrir það. Annað átti eftir að koma í ljós en á þessu augnabliki réði ég fullkomlega við aðstæður og sjálfa mig.“

Sagðist Eva hafa verið afar rólega og að hugsun hennar hafi verið skýr, þó upplýsingarnar hafi verið ruglingslegar.

- Auglýsing -

„Ég hafði ekki grátið og hafði enga þörf fyrir það. Ég var pollróleg. Hugsun mín var skýr þótt upplýsingarnar væru óreiðukenndar. Ég hugsaði; nei þetta getur ekki verið, við vitum að hann er í Grikklandi. En svo strax; ekki vera í afneitun, hann væri búinn að hringja ef hann hefði komist til Grikklands. Ég opnaði Google skjal og skrifaði; „eigi skal syrgja – heldur hvað?“ Ég veit enn ekki hvað.“

Löngu seinna sýndi Eva svo önnur viðbrögð.

„Ég hlustaði á Passion Play með Jethro Tull. Ég skrifaði bloggpistil sem ég birti næsta dag. Svo slökkti ég á símanum og lauk við og skilaði lögfræðiverkefni sem ég hafði að mestu unnið daginn áður. Ég var í námi og tókst einhvernveginn að selja sjálfri mér þá hugmynd að einn svona atburður ætti ekki að hafa áhrif á það. Hann gerði það – en ekki þennan dag.
Mig langaði ekki að borða en að öðru leyti var allt eðlilegt. Ég var ekki skjálfhent, ekki með munnþurrk, fann ekki fyrir örum hjartslætti, mér var ekki of heitt eða of kalt.

Löngu síðar sýndi ég viðbrögð sem báru vott um verulega geðshræringu en á þessari stundu hreyfði ekkert við mér.“

- Auglýsing -

Hér má lesa færsluna óslitna:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -