Eyþór Arnalds hefur tekið sér svo margt fyrir hendurnar í lífi sínu að of langt mál væri að telja það upp. En allt hefur hann gert það með glans.
Mannlíf ræddi við tónlistarmanninn Eyþór Arnalds að þessu sinni, en hann hefur nú á nýjan leik gengið til liðs við eina stærstu hljómsveit íslenskrar tónlistarsögu, Todmobile, en Eyþór var einn af stofnendum hljómsveitarinnar fyrir rúmum þrjátíu árum síðan.
Nokkrar mannabreytingar hafa orðið á Todmobile í áranna rás eins og gefur að skilja, en nú mun Eyþór standa á sviði með Todmobile í fyrsta sinn síðan árið 2007.
Eyþór er strax spurður hvernig það hafi komið til að Todmobile varð til? Og ekki síður: Varð samstarfið strax farsælt?
„Við Þorvaldur B. vorum í tónsmíðanámi í Tónlistarskólanum í Reykjavík þar sem Þorkell Sigurbjörnsson, Atli Heimir Sveinsson og fleiri kenndu okkur. Við höfðum báðir verið í hljómsveitum áður en klassíkin yfirtók okkar líf. Ég í Tappa Tíkarrassi sem var í Rokk í Reykjavík og Þorvaldur í Pax Vobis.
Þorvaldur stakk upp á því að við tækjum upp nokkur lög með Andreu Gylfadóttur sem var að útskrifast úr Söngskólanum, en við höfðum verið að vinna saman að tónsmíðum fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands sem lokaverkefni. Þorvaldur var að útskrifast í klassískum gítar og ég í sellóleik.
Úr varð að við sendum demo á útgefanda sem bauð okkur samning. Samstarfið varð strax sterkt og má segja að fyrsta platan hafi slegið í gegn hjá gagnrýnendum og hlustendum.“
Funduð þið ykkur fljótlega ykkar tón og þá átt sem þið vilduð fara í?
„Já, það má segja það. Við blönduðum saman klassískum tónsmíðum og hljóðfærum við rafmagn og tölvur. Lögin voru fjölbreytt en stíllinn alltaf metnaðarfullur.
Stúdíóin voru okkar tónlistareldhús þar sem við blönduðum saman þessum ólíku elementum. Líkt og rafmagn með plús og mínus varð útkoman sterkari vegna þess að við leyfðum okkur að tengja saman þessa ólíku þætti.“
Og þá er komið að þeirri klassísku spurningu sem tónlistarmenn þurfa oft að glíma við: Er hægt að skilgreina tónlist Todmobile?
„Ég læt öðrum um það, en er meira fyrir að fara út fyrir boxið og sprengja upp hefðbundnar skilgreiningar.“
Frá upphafi varð Todmobile ákaflega vinsæl hljómsveit og ég spyr Eyþór um velgengnina, plöturnar og öll vinsælu lögin.
Þetta hlýtur að hafa verið skemmtilegur og krefjandi tími?
„Já, þetta var ógleymanlegur tími. Sprakk út má segja. Náðum til fjölbreytts hóps og spiluðum þegar mest var yfir 100 sinnum á einu ári.
Ég var byrjaður í framhaldsnámi í sellóleik og tónsmíðum í Amsterdam þegar hljómsveitin sló í gegn. Það varð til þess að ég frestaði þeim „karríer“ og hellti mér í tónlistina með Todmobile heima.“
Eyþór, nú ert þú kominn aftur, hvað kom til?
„Við komum saman árið 2003 með Sinfóníunni í Laugardalshöll og svo aftur 2006 þegar við tókum upp plötu í Barcelona, en síðan 2007 hef ég ekki komið fram á tónleikum með Todmobile.
Þorvaldur hefur verið mikilvirkur í tónlistarlífinu með stór verkefni og hann hafði samband við mig í haust og stakk upp á endurkomu í Eldborg. Mér fannst það frábær hugmynd og við náðum að halda tónleika í Hörpunni einmitt þegar grímuskyldan var ekki virk. Það var sannarlega grímulaus gleði.
Nú ætlum við að endurtaka leikinn í HOFi á Akureyri á laugardaginn kemur. Það er boðið upp á hraðpróf. Og einstaka tónleika.“
Sérðu fyrir þér í framtíðinni að Todmobile taki upp lög og gefi út og haldi marga tónleika?
„Maður á aldrei að segja aldrei. Það hefur sagan sannað.
Eitt er víst að þetta var ótrúlega skemmtileg upplifun fyrir okkur og ekki var annað að sjá og heyra en að áhorfendur væri á sömu bylgjulend. Við höfum ekkert ákveðið annað en HOF á laugardag.“
En hvað með sjálfan þig og tónlistarframtíðina? Hefurðu til dæmis einhvern tímann hugsað um að gefa út sóló efni?
„Ég hefði áhuga á að taka upp þráðinn í klassíkinni sem ég skildi eftir í Hollandi fyrir löngu.
Ég samdi fyrir sinfóníuhljómsveitir, leikhús og kvikmyndir þegar ég var á kafi í tónlistinni.
Í dag spila ég á selló og píanó og myndi vilja koma einhverju af því efni frá mér. Svo er alltaf sterkur strengur milli okkar í Tappa Tíkarrassi og höfum líka samið ný lög saman sem koma kannski í ljós á nýju ári.“
Jæja, að lokum Eyþór, við hverju mega áhorfendur eiga von á frá ykkur á komandi tónleikum á laugardaginn á Akureyri?
„Mikilli spilagleði. Svo mikið er víst.
Þeir listamenn sem skipa Todmobile í dag eru um margt ólíkir, en eiga eitt sameiginlegt. Og það er að gefa af sér. Það verður ekkert gefið eftir. Því get ég lofað.“
Tónleikar Todmobile verða á Akureyri í Hofi á laugardaginn og hefjast klukkan 20.