Útlit er fyrir að útgerðarfélagið Samherji hafi nú afskrifað 100 milljón króna lán sem fyrirtækið veitti Eyþóri Arnalds, fyrrverandi oddvita Sjálfstæðisflokksins í borginni, til að kaupa hlut í Morgunblaðinu. Eignarhaldsfélag hans hagnaðist um 388 milljónir á síðasta ári og er hagnaðurinn meðal annars tilkominn vegna afskriftarinnar.
Eyþór á núna tæplega 12 prósenta hlut í Þórsmörk, móðurfélagi Moggans, í gegnum eignarhaldsfélag sitt, Ramses II. Hluturinn var um síðustu áramót bókfærður á 100 milljónir króna. Félagið fékk seljendalán frá félagi í eigu Samherja til að kaupa hlut sjávarútvegsrisans í útgáfufélaginu árið 2017. Það lán var á gjalddaga í mars 2020 og hefur enn ekki verið greitt.
Samkvæmt Viðskiptablaðinu hefur Samherji nú afskrifað lánið til Eyþórs og fékk hann 100 milljóna virði í hlutabréfum Moggans því gefins frá útgerðarfyrirtækinu.
Á sínum tíma var Eyþór gagnrýndur fyrir að útskýra ekki með greinargóðum hætti hvernig stóð á því að hann eignaðist hlut Samherja í Morgunblaðinu, án þess að greiða krónu fyrir. Hann vísaði því alfarið á bug að viðskiptin hafi verið persónuleg gjöf frá Samherja til sín og fullyrti að hann hafi ætlað að hagnast á hlutabréfakaupunum.