Miðvikudagur 8. janúar, 2025
-6.2 C
Reykjavik

Falun Gong-uppþotið: Íslensk stjórnvöld héldu fólki af „svörtum lista“ föngnu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í júní árið 2002 kom Jiang Zemin, þáverandi forseti Kína, í opinbera heimsókn til Íslands. Þegar áform um heimsóknina voru kunngerð ákváðu einhverjir meðlimir Falun Gong-hreyfingarinnar að koma til landsins á sama tíma, í þeim tilgangi að mótmæla meðferð kínverskra stjórnvalda á andófsmönnum í Kína.

Davíð Oddsson var forsætisráðherra á þessum tíma og ákvað að setja hömlur á komu fólks sem grunað var um að tilheyra hreyfingunni. Stjórnvöld lokuðu hóp fólks inni dögum saman á tómum skóla á Suðurnesjum við komuna til landsins, svo öruggt væri að mótmælendur skyggðu ekki á komu kínverska ráðamannsins. Jiang Zemin bar meðal annars ábyrgð á ofsóknum á hendur meðlimum Falun Gong.

Á meðan fólkinu var haldið föngnu af lögreglu var hátíðleg móttaka haldin til heiðurs kínverska forsetanum, hvort tveggja í boði íslenskra stjórnvalda.

Samkvæmt grein sem birtist í Grapevine árið 2005 var farþegum sem báru kínversk nöfn bannað að fara um borð í flugvélar Icelandair í Danmörku á leið til Íslands. Þarna hafði fólki því bæði verið mismunað vegna trúar sinnar og nafna, allt samkvæmt fyrirskipun íslenskra stjórnvalda.

Mynd: Skjáskot DV

Borgarstjórn ósammála ríkisstjórninni

Ekki virðist borgarstjórn í Reykjavík hafa verið sammála afstöðu ríkisstjórnarinnar þegar kom að meðlimum Falun Gong. Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg í tengslum við heimsókn forsetans sagði meðal annars:

„Að gefnu tilefni vill borgarráð árétta að það samræmist ekki stefnu Reykjavíkurborgar að takmarka fjölda friðsamra mótmælenda í borginni. Ljóst er að tryggja verður öryggi erlendra gesta sem koma í opinberum erindagjörðum hingað til lands. Ríkar ástæður þurfa hins vegar að vera fyrir því að takmarka lýðræðislegan rétt fólks til að lýsa skoðun sinni eða afstöðu í tengslum við opinberar heimsóknir.“ (Morgunblaðið)

- Auglýsing -

Í samþykkt borgarráðs kom einnig fram að ekki stafaði hætta af friðsamlegum mótmælum. Þvert á móti væru þau eitt megineinkenni lýðræðislegs stjórnarfars sem byggðist á virðingu fyrir mannréttindum. Í Reykjavík væri baráttufólki fyrir mannréttindum því alltaf velkomið að koma málstað sínum á framfæri með friði.

 

Átti aldrei að sjá mótmælendur

Joel Chipkar var einn af helstu talsmönnum Falun Gong hér á landi. Hann tók þátt í friðsælum mótmælum hreyfingarinnar vegna komu forsetans.

- Auglýsing -

„„Falun Dafa ho“ hrópaði Joel Chipkar frá horni Ingólfsstrætis og Hverfisgötu þegar forseti Kína gekk frá bíl sínum en það mun þýða „Falun Dafa er gott“. Skömmu áður hafði hann gert sig líklegan til að draga upp gulan borða með merki Falun Gong en afhenti hann lögreglu eftir að hún hafði rætt við hann. Þegar Chipkar hrópaði að forsetanum færðu nokkrir lögreglumenn sig að honum en héldu sig þó innan við afmarkað öryggissvæði. Nokkrir kínverskir öryggisverðir hlupu til og stilltu sumir sér upp við hlið Chipkars. “ (Morgunblaðið)

Miklu púðri var eytt í að kínverski forsetinn sæi aldrei mótmælendur og að mótmælendur héldu sig á afmörkuðum svæðum. Forsetinn sótti til dæmis fund með þeim Davíð Oddssyni og Halldóri Ásgrímssyni í Þjóðmenningarhúsinu á allt öðrum tíma en auglýstur hafði verið, til þess að koma mætti í veg fyrir að forsetinn yrði mótmælendanna var, sem sennilega ætluðu sér að mæta að Þjóðmenningarhúsinu á sama tíma og Jiang Zemin.

Chipkar sagði það ósanngjarnt að krefjast þess að fólkið væri á svæðum þar sem kínverski forsetinn sæi það ekki. Tilgangur Falun Gong-iðkenda væri einmitt að vekja athygli á mannréttindabrotum í Kína. Chipkar sagðist sjálfur eiga vini sem hefðu verið pyntaðir fyrir það eitt að leggja stund á Falun Gong.

Mynd: Skjáskot DV

Falun Gong

En hvað er Falun Gong? Auðvelt væri að gera sér í hugarlund að um væri að ræða hóp mótmælenda, hugsjónafólks sem vildi rísa til valda í Kína; fólks sem ætlaði sér að gera usla í heimalandinu og ógna stjórnvöldum. Það væri afar auðvelt að gera sér það í hugarlund, miðað við meðferð kínverskra stjórnvalda á fólkinu og framkomu íslenskra stjórnvalda í þeirra garð.

Falun Gong er hins vegar andleg iðkun sem byggir á kerfi hugleiðslu og andlegrar uppljómunar. Um er að ræða endurvakningu á fornri kínverskri orkuleikfimi. Kerfið inniheldur fimm íhugunaræfingar og leggur áherslu á siðferði. Forsprakkar hreyfingarinnar vildu meina að með iðkun Falun Gong mætti bæta heilsu sína til muna, svo mjög að lyf of hefðbundnar lækningar yrðu jafnvel óþarfar. Árið 1999 bannaði kínverski kommúnistaflokkurinn hreyfinguna. Grunngildi iðkunarinnar eru sannleikur, samkennd og umburðarlyndi. Þeir sem muna eftir komu hreyfingarinnar til landsins, eða þeirra fáu sem komust í gegn, muna ef til vill eftir sérkennilegum hreyfingum, einskonar æfingum, sem meðlimirnir gerðu. Um er að ræða sérstakar hreyfingar sem iðkendur nota í þeim tilgangi að styrkja andlega þátt iðkunarinnar.

 

Meðlimur í fylgdarliði forsetans tók myndir af mótmælendum

„Um tylft Falun Gong-iðkenda var við Höfða í gærmorgun þegar forsetafrú Kína, frú Wang Yeping, kom þangað í skoðunarferð. Fólkið hélt sig á grasflöt, alllangt frá húsinu, og gerði æfingar og stundaði hugleiðslu.

Maður í fylgdarliði kínverska forsetans gekk frá Höfða og tók nokkrar myndir af hópnum.

Eins og kunnugt er gerðu talsmenn Falun Gong samkomulag við lögreglu um að stunda æfingarnar á þremur afmörkuðum svæðum, á Austurvelli, Arnarhóli og í Hallargarðinum. Joel Chipkar, einn talsmanna Falun Gong-iðkenda hér á landi, sagði við Morgunblaðið að þau hefðu komið með flugvél seint í gærkvöldi og ekki verið í sambandi við aðra iðkendur. Þau hefðu því ekki vitað af samkomulaginu við lögregluna. Um leið og hann frétti af fólkinu við Höfða hafi hann rætt við fólkið og fengið það til að færa sig.“ (Morgunblaðið)

Meðlimir í stjórnarandstöðu á Alþingi gerðu margir alvarlegar athugasemdir við aðgerðir stórnvalda vegna heimsóknar kínverska forsetans. Þannig fóru fulltrúar Samfylkingarinnar í allsherjarnefnd Alþingis fram á að nefndin kæmi saman til fundar vegna málsins.

Fréttablaðið fullyrti á sínum tíma að íslensk stjórnvöld hefðu fengið „svartan lista“ kínverskra stjórnvalda í hendurnar sem innihélt nöfn fólks sem iðkaði Falun Gong og tilheyrði hreyfingunni. Þennan lista hafi stjórnvöld stuðst við þegar fólki var meinuð innganga í landið. Íslensk stjórnvöld viðurkenndu á sínum tíma tilvist listans en hvorki staðfestu né neituðu því að hann kæmi úr höndum kínverskra stjórnvalda.

„Síðan bann var lagt við Falun Gong hafa yfir 50.000 manns verið handteknir, meira en 10.000 hafa verið sendir í þrælkunarbúðir án dóms og laga, 200 hafa verið dæmdir í fangelsi og 1.000 manns hafa verið vistaðir á geðsjúkrahúsum. Það versta er að yfir 200 manns hafa svo verið drepnir fyrir það eitt að leggja stund á æfingarnar,“ sagði Kevin Yang, Falun Gong-iðkandi í viðtali við DV þann 10. júní árið 2002.

Um sjötíu iðkendum Falun Gong var meinuð innganga í landið. 26 þessara einstaklinga komu til landsins með flugvélum frá Bandaríkjunum. Þeir aðilar voru fluttir í Njarðvíkurskóla við komuna til landsins, þar sem þeir voru í haldi lögreglu. Á fimmta tug einstaklinga sem komu með flugvélum frá Kaupmannahöfn og nokkrum með flugi frá öðrum Evrópulöndum var synjað um inngöngu.

Peter Rechnagel, þýskur námsmaður og meðlimur Falun Gong-hreyfingarinnar, sem haldið var í Flugstöð Leif Eiríkssonar, sagðist hafa verið í yfirheyrslum í sex klukkustundir. Hann sagði í samtali við DV að lögreglan hefði þjarmað að sér og ekki gefið honum skýringar á handtökunni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -