Fangi lést á sjúkrahúsi fáeinum dögum eftir að hafa verið fluttur bráðveikur frá Hólmsheiði.
RÚV segir frá því að fangi á Hólmsheiði hefði verið fluttur á sjúkrahús bráðveikur þann 21. desember síðastliðinn og látist nokkrum dögum síðar. Staðfestir Páll Winkel fangelsismálastjóri þetta við ríkismiðilinn og segir fangavörð hafa komið að manninum, þar sem hann lá þungt haldinn.
Hafði maðurinn komið á Hólmsheiði aðeins nokkrum dögum áður en hann veiktist. Segir Páll að allir sem koma að máli sem þessu, bæði fangar og starfsmenn fangelsisins, fái nauðsynlega þjónustu sé þess óskað, hvort sem um ræðir sálfræði- eða áfallahjálp.
Eins og lög kveða á um var málið tilkynnt lögreglu en Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segir við RÚV að ekkert saknæmt eða óeðlilegt hafi komið í ljós við rannsókn málsins.