Fimmtudagur 26. desember, 2024
1.8 C
Reykjavik

Fannar bæjarstjóri var á Hellu þegar Suðurlandsskjálftinn reið yfir: „Þetta voru sérstakir tímar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, hefur staðið þétt við bakið á sínu fólki í þeim jarðhræringum sem hafa skekið Reykjanes. Í viðtali við Reyni Traustason ræðir hann um jarðhræringarnar og áhrif þeirra, um Suðurlandsskjálftann sem hann fann vel fyrir sumarið 2000 og í haust var hann í Marokkó þegar mannskæður jarðskjálfti reið þar yfir.

Í viðtalinu talar hann meðal annars um Suðurlandsskjálftann sumarið 2000, en Fannar var þá staddur á Hellu. Hér er brotið:

Suðurlandsskjálftinn

Og jörðin skelfur af og til.

Fannar var á Hellu þegar Suðurlandsskjálftinn reið yfir sumarið 2000 og eyðilögðust nokkuð mörg hús.

„Ég var þá viðloðandi sveitarstjórnarmálin. Ég var til dæmis formaður stjórnar Hitaveitu Rangæinga, var það í 19 ár, og það urðu mjög miklar skemmdir á hitaveitunni 17. júní. Aðveitan frá Laugalandi og að Hellu og síðan í Hvolsvöll laskaðist mjög verulega og það var heitavatnslaust hjá okkur í um það bil hálfan mánuð. Og það vildi bara svo vel til að við vorum að leggja nýja stállögn í staðinn fyrir gömlu asbestlögnina – ef það hefði ekki verið á lokametrunum má segja hefðu bæjarfélögin verið vatnslaus svo mánuðum skipti. Þannig að það var í rauninni algert lán að þessi lögn skyldi nánast vera tilbúin og að þessi atburður skyldi vera um mitt sumar. Ef þetta hefði verið 17. desember en ekki 17. júní hefðu hús skemmst í stórum stíl vegna frostskemmda. Þannig að það var mikið lán yfir þessu. Sá skjálfti var mjög harður og eins og innbú okkar hjóna og annarra fór; meira og minna allt leirtau brotnaði. Þetta var reyndar misjafnt eftir húsum og götum en það urðu mjög miklar skemmdir hjá okkur.“

- Auglýsing -

17. júní-skemmtun var í íþróttahúsinu á Hellu og Fannar hafði skroppið á skrifstofuna og var þar þegar jarðskjálftinn reið yfir. „Það féllu bókaskápar og voru möppur út um allt.“ Fannar fór út og segist hafa séð um helminginn af vatninu úr sundlauginni í bænum streyma niður götuna og að það hafi gusast upp úr lauginni í jarðskjálftanum. „Það var rafmagnslaust í íþróttahúsinu og fólk var skelfingu lostið að koma út um neyðarútgangana. Þar hitti ég konuna mína og börnin. Það var blíðskaparveður. Þetta var auðvitað mikill atburður og harður skjálfti á Hellu en þó hann hafi verið ennþá harðari við upptökin þá vorum við svo nálægt þessu að það urðu miklar skemmdir.“

Fannar var í almannavarnanefnd Rangárvallasýslu á þessum tíma og var þess vegna svolítið viðloðandi framhaldið. „Þetta voru sérstakir tímar.

Ég fór með vísindamönnum og verkfræðingum svolítið í úttektir á milli húsa og sá skemmdirnar og auðvitað brá mörgum í brún. Sumir þorðu ekki að fara aftur inn í húsin. Það var eftirskjálfti 21. júní og hann var dálítið snarpur líka. Það var fólk sem tjaldaði í garðinum hjá sér eða gisti annars staðar. En þessi nýju hús eru svo rammbyggð að þau standast svona áraun. Elstu húsin sem voru kannski hlaðin og úr vikursteinum fóru verst. Það mátti enginn fara inn í sum þeirra sem voru að því komin að hrynja. Nokkrum dögum seinna fóru björgunarsveitarmenn inn og tíndu út nauðsynlegustu muni en fólkið kom aldrei inn í húsin aftur. Þannig að hefði skjálftinn staðið yfir örlítið lengur hefðu sum hús hrunið; elstu húsin sem voru byggð eftir allt öðrum reglum en nú eru í gildi.“

Hægt er að hlusta á allt viðtalið á hlaðvarpsveitu Mannlífs.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -