Miðvikudagur 5. febrúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Fanney lamaðist í skíðaslysi: „Kom aldrei upp sú hugsun að ég gæti mögulega endað í hjólastól“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fanney Þorbjörg Guðmundsdóttir lamaðist í alvarlegu skíðaslysi í Noregi árið 2011.

Fanney er í einlægu viðtali við Vísi í dag, þar sem hún fer yfir lífið hingað til, slysið og endurhæfinguna sem tók við, en það varð strax ljóst á sínum tíma að bataferli Fanneyjar ætti eftir að verða langt og strangt. Hún hafði æft skíði frá barnæsku og var afrekskona með bjarta framtíð í íþróttinni.

Slysið varð um jólin árið 2011, en fjölskylda Fanneyjar hafði ákveðið að halda jólin saman í Noregi. Þau eru öll mikið skíðafólk og þennan dag héldu þau öll saman í brekkuna. Það var hinsvegar í fjórðu eða fimmtu ferð sem skíði Fanneyjar gripu fast í og hún kastaðist upp í loftið og lenti á bakinu.

Hún rann á bakinu nokkra vegalengd niður brekkuna og skall að lokum á tré.

„Ég hafði lent á tré og fæ högg á höfuðið og við það högg hálsbrotna ég. Það kemur skiljanlega panikk á fólkið í kringum mig en ég var mjög slök allan tímann. Ég fann þó strax fyrir því að ég gat ekki hreyft mig en ég var ekki mikið að hugsa um það því ég átti erfitt með að anda og það var það eina sem ég hugsaði um á þessum tímapunkti. Að anda sem var þó einungis heldur grunn öndun.“

„Ég man ótrúlega vel eftir því af því að líkaminn fer bara í svona ‘survival mode’ þegar maður lendir í svona.“

- Auglýsing -

„Pabbi stóð yfir mér og var að spyrja mig allskonar spurninga. Eftir nokkrar spurningar frá honum svaraði ég honum höstuglega að ég gæti ekki hreyft mig, ég gat ekki hugsað um neitt annað en að anda. Þá hætti hann að spyrja.“

Fanney var flutt beint á sjúkrahús í Osló.

„Ég fór í svona röntgen skanna til að athuga brot og maður þarf að liggja alveg kyrr í skannanum. Ég hugsaði um það allan tímann að hreyfa mig alls ekki en var samt lömuð og hefði ekki geta gert það þó ég vildi. Það er svolítið fyndið að hugsa um það núna.“

- Auglýsing -

„Eins og einhver engill hefði kallað á hann til mín“

Fanney náði að hreyfa tærnar örlítið og foreldrar hennar sögðu það vera bestu jólagjöf sem þau gætu nokkurn tíma fengið. Fjórum dögum eftir slysið fór Fanney í aðgerð, en þegar hún vaknaði eftir aðgerðina fór raunveruleikinn að síast inn.

„Ég man að ég vaknaði eldsnemma þann 28. desember og þá var svona fyrsta sinn sem ég fattaði raunverulega í hvaða stöðu ég væri. Ég var búin að liggja í einhvern tíma, ein með mínum hugsunum, þegar pabbi kemur inn og ég man að ég hugsaði að það var eins og einhver engill hefði kallað á hann til mín! Ég var alveg að brotna niður og þá kemur minn helsti klettur labbandi inn á hárréttum tímapunkti.“

„Við förum að ræða aðstæðurnar sem ég var í og í hverju ég lenti. Það eina sem ég gat gert var að tala og ég brotna alveg niður og sagði við pabba að ég myndi aldrei geta hlaupið jafn hratt og ég hefði gert áður. Þá sagði hann jú! Þú munt hlaupa miklu hraðar.“

„Hugsunarhátturinn var á svo réttum stað hjá fólkinu í kringum mig. Í gegnum allt ferlið voru allir að peppa mig. Einhvern veginn kom aldrei upp sú hugsun að ég gæti mögulega endað í hjólastól. Ég hafði trú á því að ég myndi ná mér, vissi ekki hversu vel en hafði alltaf trú á bata.“

Varð að leggja sig eftir að hafa gengið 10 skref

Eftir slysið varð Fanney að læra að gera allt upp á nýtt. Það varð hinsvegar fljótlega ljóst að baráttuandi hennar var mikill og jákvæðni hennar smitaði út frá sér. Hún var alltaf tilbúin til að takast á við þau verkefni sem henni voru sett fyrir á spítalanum og var ólm í að bæta sig frá degi til dags. Endurhæfingin tók hinsvegar mikið á og fyrst um sinn varð hún að leggja sig eftir að hafa gengið 10 skref. Fyrstu skrefin eftir slysið tók hún 14. janúar.

Metnaður Fanneyjar í skíðaíþróttinni kom henni vel í bataferlinu, því hún sýndi sama keppnisskap þar og nálgaðist batann skipulega, setti sér markmið og vann markvisst að þeim.

Fanneyju þótti erfitt að þurfa að treysta á aðra með allt eftir slysið og upplifði sig berskjaldaða. Hún var þó ákveðin í að vera opin með hlutina og skríða ekki inn í skel.

„Ég hefði getað ákveðið að lífið væri ömurlegt en ég var bara mjög tilbúin til að berjast og halda áfram. Ég hélt ekki vanlíðan fyrir sjálfa mig og ég ræddi málið og fékk pepp frá mínum nánustu og þannig liðu dagarnir. Þegar ég fann að bataferlið var að ganga vel tók ég ákvörðun um að setja mig alls ekki inn í bómull. Ég ætlaði bara að halda áfram og gera allt sem mér fannst skemmtilegt, ekki að þora ekki að gera hluti sem ég gerði áður, eins og að fara á hestbak, skíði og æfa fótbolta.“

„Markmiðið var alltaf að komast á þann stað sem ég var á áður en ég lenti í slysinu. Ég var hræddari við að geta ekki gert alla þessa hluti sem mér fannst svo ótrúlega skemmtilegt að gera heldur en að gera þá. Það var aldrei hik hjá mér að halda áfram út af því að ég hafði lent í þessu. Tilfinningin þegar ég náði að gera eitthvað sem ég gat ekki áður var bara eins og að sigra heiminn. Allt varð rosalega hyper tilfinning. Ef maður náði markmiðum var það sjö þúsund sinnum betra en að ná markmiðum á skíðum áður fyrr.“

Endaði í efstu deild í fótbolta og hljóp Laugarveginn

Þrátt fyrir að Fanney gæti aldrei átt afturkvæmt sem afrekskona á skíðum lét hún það ekki stöðva sig í að æfa aðrar íþróttir. Svo fór að þegar Fanney hafði náð nægilegri heilsu og árangri í endurhæfingu fór hún að spila fótbolta. Á endanum var hún farin að spila með Þrótti í efstu deild.

„Mig langaði svo að taka þátt í að vera í liðsheildinni og æfa með vinkonum mínum. Ég þráði svo mikið að vera með og geta verið á sama stað og fyrir slysið. Svo hélt ég áfram að æfa og endaði á að spila með Þrótti í efstu deild. Ég var alltaf mjög ákveðin í því að komast þangað. Ég ætlaði ekki að vera bara með.“

Eftir að Fanney varð móðir, fyrir tveimur árum, fór hún að stunda útihlaup. Í sumar tók hún svo þátt í Laugarvegshlaupinu og kláraði það á sex og hálfum tíma.

Í dag finnst Fanneyju hún geta allt. Eftir allt bataferlið og endurhæfinguna, þvert á verstu hrakspár, sé hún stödd þar sem hún er. Hún nýtir eigin reynslu meðal annars til að hvetja aðra og hjálpa þeim:

„Það peppar mig mjög mikið að peppa aðra. Mér finnst svo gaman að sjá fólk gera eitthvað sem þau trúðu ekki að þau gætu gert.“

 

Hér má lesa viðtal Vísis í heild.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -