Fimmtudagur 24. október, 2024
2.6 C
Reykjavik

Fékk enga skýringu á skrópgjaldi snyrtistofu: „Eru þetta lögmætir viðskiptahættir?“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þjónustuaðilar rukka margir hverjir svokallað skrópgjald fyrir tíma sem viðskiptavinir mæta ekki í, eða afbóka með skömmum fyrirvara. Í dag birtist færsla manns á Twitter sem fékk reikning sendan í heimabanka, vegna meints skróps barns hans í bókaðan tíma á snyrtistofu. Engar skýringar fylgdu reikningnum og maðurinn varð sjálfur að fara á stúfana og bera sig eftir upplýsingum. Hann veltir því upp hvort um sé að ræða eðlilega viðskiptahætti.

„Var að fá reikning frá einhverri snyrtistofu vegna meints skróps barns míns í pantaðan tíma fyrir mörgum mánuðum. Eru þetta lögmætir viðskiptahættir? Er pöntun á tíma viðskiptasamningur?“ segir í færslu mannsins.

„Ég hef oft séð svona skilmála, að maður þurfi að afbóka með t.d. sólarhrings fyrirvara hjá hárgreiðslustofum, sálfræðingum o.fl. eða vera rukkaður um hálft gjald,“ segir í athugasemd annars notanda við færsluna. Viðkomandi segir að sér þyki það að vissu leyti eðlilegt, þar sem þjónustuaðilar geti ekki selt öðrum tíma sem fólk skrópi í.

Höfundur upphafsfærslunnar svarar þá: „Já, en er lagaheimild fyrir því? Er maður að undirgangast viðskiptasamning þegar maður hringir og pantar tíma? Segir neytendalöggjöfin eitthvað um þetta?“

„Það er góð spurning,“ segir í annarri athugasemd seinni aðilans. Viðkomandi segist ekki viss, en telji þó líklegt að fyrirtækjum sé heimilt að setja skilmála af þessu tagi, ef viðskiptavinir séu upplýstir um þá við bókun. „Ef það er ekki gert þá finnst mér það mjög vafasamt.“

 

- Auglýsing -

Reikningur dagsettur fjóra mánuði aftur í tímann

Höfundur upphafsfærslunnar útskýrir þá að hann sé ósáttur við snyrtistofuna sem um ræðir, vegna þess að reikningnum, sem barst frá fyrirtæki sem hann sjálfur þekkti ekki til, fylgdi engin skýring. Reikningurinn hafi einnig verið dagsettur með eindaga og innheimtugjaldi fjóra mánuði aftur í tímann. Í ofanálag hafi tíminn sem um ræðir sannarlega verið notaður af barni hans.

Í samtali við Mannlíf segist maðurinn, sem vill ekki koma fram undir nafni, vera búinn að senda stofunni sem um ræðir snyrtilegt bréf og bíði þess nú að reikningurinn verði felldur niður. Hann segir að honum þyki undarlegast í þessu að hægt sé að senda fólki reikninga án allra skýringa, sem neytendur þurfi síðan sjálfir að afla upplýsinga um.

Þess ber að geta að neytendur eiga ávallt rétt á að vita tilefni reiknings; fyrir hvað sé rukkað.

- Auglýsing -

Skróp eitt stærsta vandamál þjónustuaðila

Árið 2019 vakti bókunarfyrirtækið Noona athygli á því í DV að skróp væri eitt stærsta vandamál sem þjónustuaðilar glímdu við. Milljarðar töpuðust árlega vegna þessa. Stéttir sálfræðinga, snyrtifræðinga, kírópraktora, hársnyrtifræðinga, ráðgjafa og ótal annarra þjónustuaðila yrðu fyrir miklu tekjutapi þegar þeir sætu eftir með sárt ennið vegna skrópa viðskiptavina. Í grein Noona sagði að samkvæmt gögnum þeirra væri skrópað í um það bil 5 prósent allra tíma á Íslandi. Á verstu mánuðum sem fyrirtækið hefði séð var skrópað í 20 prósent allra tíma mánaðarins.

Í greininni var bent á skrópgjöld sem góða lausn á vandamálinu. Þjónustuaðilar gætu þá rukkað 50 til 70 prósent heildarverðsins fyrir ónýtta tíma. „Ef viðskiptavinir bera fjárhagslegan hvata af því að mæta í tíma mun skróp minnka. Einstaklingar sem ætla sér ekki endilega að mæta í tíma hugsa sig tvisvar um að bóka ef þeir eiga á hættu að þurfa að greiða skrópgjald,“ segir í greininni.

Þó er sérstaklega tiltekið að taka þurfi tillit til aðstæðna hverju sinni þegar kemur að skrópgjöldum.

„Ákvörðun sem varðar framkomu fyrirtækja við viðskiptavini sína þarf að horfa á með linsum siðferðisins, sannleikans og sanngirni.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -