Miðvikudagur 22. janúar, 2025
-1 C
Reykjavik

Fer að hægjast á innflytjendum frá Póllandi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Miklar breytingar hafa orðið á íslensku samfélagi á síðustu áratugum og er ein breytan þar gífurlegur fjöldi innflytjenda sem hefur ákveðið að taka sitt hafurtask, söðla um og flytjast landa á milli. Stærsti hópur innflytjenda samanstendur af Pólverjum og hafa þeir eins misjafna reynslu af dvöl sinni á Íslandi og þeir eru margir.

Gerard Pokruszyński er fyrsti pólski sendiherrann á Íslandi en hann tók við stöðunni í lok árs 2017. Hann segir í samtali við Kjarnann að erfitt geti verið að reikna út nákvæman fjölda Pólverja á Íslandi því þrátt fyrir að samkvæmt Þjóðskrá séu þeir rúmlega 20.000 þúsund talsins þá sé líklegt að þeir séu fleiri. „Inni í þessari tölu eru til dæmis ekki þeir sem einnig eru orðnir Íslendingar en þeir eru á bilinu fjögur til fimm þúsund talsins.“

Sendiherrann segir að Pólverjum fjölgi um 2.000 á hverju ári hverju. „Ég tel að þessi þróun muni halda áfram næstu ár. Vegna þess að efnahagsástand í Póllandi er að verða mun betra munu færri koma hingað til lands, að mínu mati. Atvinnuleysi er um fimm prósent núna í Póllandi og það er á stefnuskrá nýrrar ríkisstjórnar að hækka lægstu launin. Ef þau markmið nást þýðir það að lægstu launin, sem og miðlungs, verða á við helmingslaun á Íslandi. Og vegna þess að það kostar mjög mikið að lifa hér á landi verða launin svipuð fyrir sömu vinnu hér og í Póllandi,“ segir hann.

„Hinn hefðbundni Pólverji dvelur hér á landi í tíu til tólf ár en á einhverjum tímapunkti ákveður hann hvort hann vilji halda áfram að vera hér eða fara til baka.“

Á næstu fjórum til átta árum mun fólk því halda áfram að flytja frá Póllandi til Íslands, að hans mati, en eftir það mun fjöldinn snarminnka. „Sumir munu auðvitað ákveða að halda áfram að búa hér á landi en aðrir munu óhjákvæmilega flytja aftur til Póllands.“

Margir sneru til baka í og eftir hrun
Gerard bendir á að oft dvelji Pólverjar hér á landi og vinni í nokkur ár og fari síðan til baka. „Hinn hefðbundni Pólverji dvelur hér á landi í tíu til tólf ár en á einhverjum tímapunkti ákveður hann hvort hann vilji halda áfram að vera hér eða fara til baka.“ Þar skipti miklu máli hvort börn séu í spilinu, hvort fólk vilji að afkomendurnir alist upp á Íslandi eða í Póllandi. „Ef börnin fara í íslenska skóla er það ákveðnum vandkvæðum bundið að fara til baka.“

Langflestir Pólverjar fluttu hingað til lands fyrir efnahagshrunið 2008. Þeim fjölgaði í kjölfar þess að Pólland gekk í Evrópusambandið árið 2004 og þegar takmörkunum á frjálsu flæði launafólks frá nýjum ríkjum ESS var aflétt á Íslandi vorið 2006. Efnahagsuppgangur hér á landi á þessum árum hafði mikið að segja og ekki var vöntun á atvinnu í aðdraganda hrunsins.

Í og eftir hrunið sneru aftur á móti um 7.000 manns aftur til heimalandsins og fór þá fjöldi Pólverja á Íslandi niður í rúmlega 9.000 manns árið 2012.

- Auglýsing -

Tungumálakennsla númer eitt, tvö og þrjú

Þegar hann er spurður út í það hvort íslensk stjórnvöld geti gert eitthvað til að taka betur á móti Pólverjum svarar hann að þau í sendiráðinu leggi áherslu á aðeins einn hlut: Að bæta aðstöðu fyrir pólsk börn í skólum. „Fyrir þá sem ákveða að dvelja á Íslandi til lengri tíma er mikilvægt að huga að pólskri tungumálakennslu fyrir börnin. Það er nauðsynlegt að geta viðhaldið móðurmálinu því þegar börn eru vel stödd þar þá eiga þau auðveldara með læra önnur tungumál.“

Auðvitað verði þau að læra íslenska tungumálið en til þess að þau geti gert það vel sé mikilvægt fyrir þau að fá góða kennslu í pólsku einnig. „Ef þau velja síðan að búa hér áfram aukast tækifæri þeirra ef þau eru góð í íslensku. Þetta hef ég einnig rætt við mennta- og menningarmálaráðherrann, Lilju Alfreðsdóttur, að börnin læri pólsku og íslensku. Það er auðvitað eðlilegt að þau læri tungumálið í landinu þar sem þau búa.“

- Auglýsing -

Lesa má umfjöllunina í heild í nýjasta tölublaði Mannlífs og á vefsíðu Kjarnans.

Texti / Bára Huld Beck

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -