Íslendingarnir fimm eru þau Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir, Isak Stianson Pedersen, Kristrún Guðnadóttir, Snorri Einarsson og Sturla Snær Snorrason.
Hólmfríður Dóra mun keppa í alpagreinum kvenna í svigi, stórsvigi og risasvigi.
Sturla Snær verður fulltrúi Íslands í alpagreinum karla og keppir í svigi og stórsvigi.
Í skíðagöngu kvenna mun Kristrún svo vera á meðal keppenda í sprettgöngu. Snorri mun keppa í 15 km skíðagöngu með frjálsri aðferð, 30 km skiptigöngu, 50 km göngu í hópstarti með hefðbundinni aðferð og liðakeppni í sprettgöngu. Isak keppir í sprettgöngu og liðakeppni í sprettgöngu sömuleiðis.
Sturla Snær, Snorri og Isak kepptu allir á leikunum í PyeongChang 2018 en Hólmfríður og Kristrún eru á leið á sína fyrstu Ólympíuleika.