Fimmtán ára drengur strauk að heiman 20 mínútum eftir að hann hafði verið fluttur þangað frá meðferðarheimilinu Stuðla, í kjölfar brunans. Hans er enn leitað.
Mbl.is segir frá því að fimmtán ára drengur, sem hafði verið vistaður á meðferðardeild Stuðla síðan í ágúst, hafi verið keyrður heim til foreldra sinna eftir brunann á Stuðlum á laugardagsmorgun. Foreldrarnir fengu einungis korters fyrirvara. Aðeins 20 mínútum síðar var hann strokinn og hefur ekki enn fundist, tveimur sólarhringum síðar.
„Við fengum bara símtal og okkur sagt að það hefði komið upp bruni og að skjólstæðingum yrði skutlað heim. Svo var hann kominn hingað kortéri seinna,“ segir móðir drengsins í samtali við mbl.is.
Áður hafði drengurinn strokið fjórum sinnum af Stuðlum og sagði móðir hans það hafa verið viðbúið að hann myndi hlaupa á brott af heimili sínu.
Fjölskyldan hefur verið frávita af áhyggjum síðan drengurinn strauk en hann á við fíkniefnavanda að stríða en móðir hans býst við að hann fari í sama far og áður og byrji að neyta fíkniefna á ný.
Uppfært:
Pilturinn er fundinn en hann gaf sig sjálfur fram við lögreglu upp úr hádegi í dag. Var hann blautur og kaldur eftir að hafa verið úti á vergangi samkvæmt móður hans sem ræddi við Vísi.