„Sala á fiski hefur hrunið niður, eftir umfjöllun RÚV um hringorma. Það eru meiri líkur á að fá lottovinning, eða geimskip í hausinn en að veikjast eftir að hafa borðað fisk.“ Þetta segir Kristján Berg, eigandi Fiskikóngsins í færslu á Facebpook-síðu sinni í dag.
Lifandi hringormar finnast í fólki á hverju ári
RÚV sagði frá því á dögunum að á hverju ári finndust lifandi hringormar í fólki og að dæmi væru um að þeir gætu valdið miklum skaða. Sagt var frá því að einn slíkur hefði fundist í bleyju barns. Karl Skírnisson, sníkjudýrafræðingur, sagði í samtali við RÚV að ormarnir kæmu að öllu jöfnu úr þorskfiskum, síld eða uppsjávarfiskum. Í gær var greint frá því að Matvælastofnun berist nú fleiri tilkynningar en áður um lifandi hringorma í fiski. Verkefnastjóri sagði það líklega tengjast breyttum neysluvenjum.
Umræðan til þess fallin að fólk sæki meira í skyndibita
Kristján Berg hefur marga fjöruna sopið þegar kemur að fiski. Hann vandar ríkisfjölmiðlinum ekki kveðjurnar.
„Þessi umræða er til þess fallin að fólk sækist meira í skyndibitamat. Eitthvað sem íslenska þjóðin þarf ekki á að halda. Við eigum ferskan fisk, íslenska villibráð, sem syndir allt í kringum landið. Er hægt að borða meiri gæði, betri mat en íslenskan ferskan fisk. Ef svo er, þá þætti mér vænt um að heyra hvaða ofurfæði það er.
RÚV er alveg að gera uppá bak í fréttaflutningi. Það er annað hvort fréttir af Landspítalanum sem er í fréttum, neikvæðar fréttir (er ekki hissa á að fólk vilji ekki vinna þar, þar sem það eru stanslausar leiðindafréttir þaðan, 95% af þeim eru neikvæðar). Eða þá fréttir af kindum/rollum eða dýrum, einhver krúsíbjörn að leika sér í snjó í dýragarði, eða rolla sem er með 4 horn.“
Kominn tími til að styðja við íslenska framleiðslu
Kristján segist halda að RÚV ætti að taka sig saman í andlitinu og birta jákvæðar fréttir.
„Núna er kominn tími til þess að snúa blaðinu við. Borða holla íslenska fæðu, hætta að flytja inn alls konar drasl matvöru og styðja við íslenska framleiðslu. Íslenskur fiskur á að vera þar efstur á blaði. Verðbólgan færi þá kannski líka aðeins niður, þannig að þetta er WIN WIN dæmi.
Eins og fram kom í fréttum um daginn, þá er áunnin sykursýki orðið vandamál. Get fullvissað ykkur um að þið fáið ekki áunna sykursýki við að borða ferskan íslenskan fisk.
Nr. 2: Íslenskur fiskur er ekki niðurgreiddur eins og lambakjötið, þar eru ríkisstyrkir til bænda nokkrir milljarðar á ári.“
„Við sem seljum fisk, þætti vænt um að við fengjum þessa styrki, þó svo það væri ekki nema í eitt ár. Það þætti okkur sanngjarnt. Þetta er orðið gott,“ segir Kristján Berg að lokum.