Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir að Seðlabanki Íslands hafi misst trúverðugleika.
Fjármálaráðherra var til viðtals í Dagmálum á mbl.is þar sem hann setti fram margskonar gagnrýni í garð Seðlabankans og baráttu hans við verðbólgu.
„Seðlabankinn verður að spyrja sig hvort hann hafi náð, í gegnum þessar miklu sviptingar sem orðið hafa, að viðhalda trúverðugleika sínum […] Mér finnst mjög skýrt sagt að bankinn tali ekki nægilega skýrt um að hann hafi tól sem hann ætli að nota og muni virka. Þegar bankinn vísar ábyrgðinni á vaxtahækkunum á einhverja aðra aðila í hagkerfinu þá er það ekki til þess að auka mjög trú mína eða annarra held ég á því að bankinn trúi því sjálfur að tólin hans virki til þess að ná árangri,“ sagði Bjarni um málið en Bjarni kynnti í gær tillögur um hvernig stæði til að ná meiri hagræðingu í ríkisrekstri. Í sumum tilfellum stendur til að fækka starfsfólki með uppsögnum og ráða ekki í störf sem losna. Þá verður líka reynt að draga úr ferðkostnaði starfsmanna og vandað til verka við innkaup.